Borgin selur bílastæði í kjallara Hörpu

Fjármál

Í bílastæðakjallara Hörpu. Horft milli tveggja bíla í forgrunni, bílar í baksýn.

125 stæði í bílastæðahúsi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfnina í Reykjavík, verða sett í söluferli. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Reykjavíkurborg er eigandi að 125 af 420 stæðum í bílastæðakjallara Hörpu. Í skýrslu starfshóps um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs má meðal annars finna tillögu um mögulega sölu á einstaka bílahúsum, þar með talið bílastæðum í Hörpu. Brunabótamat stæðanna 125 fyrir árið 2024 er einn milljarður og tæpar 158 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að þau verði auglýst nú í júní.

Rekstrarfélagið Stæði slhf. annast rekstur bílastæðahússins í Hörpukjallara. Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum en að félaginu frágengnu hefur hluthafi forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Nýti aðilar ekki forkaupsrétt sinn mun nýr eigandi stæðanna taka sæti Reykjavíkurborgar í rekstrarfélaginu. Samkvæmt ársreikningi 2023 er hlutafé Reykjavíkurborgar 22,94% en hlutafé Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. er 77,06%.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.