Borgin kaupir Aðalstræti 10

Menning og listir Umhverfi

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að Reykjavíkurborg kaupi elsta hús borgarinnar að Aðalstræti 10 með það að markmiði að setja þar upp sýningu um sögu Reykjavíkur.

Tillagan gerir ráð fyrir að Víkurkirkjugarði og þeim mannvistarleifum sem fundist hafa í garðinum og víðar í miðborginni í fornleifauppgreftri á síðastliðnum árum verði gerð góð skil á sérstakri sýningu í Aðalstræti.  Sýningin yrði m.a. tengd við sýningu Landnámssetursins að Aðalstræti 16 sem hefur notið mikilla vinsælda.

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra segir m.a.:  „Hundrað ára afmæli fullveldis Íslands á næsta ári og nýlegir fornleifauppgreftir í hjarta borgarinnar sem hafa dýpkað og að sumu leyti breytt sýn á upphaf byggðar í Reykjavík gefa margþætt tilefni til að setja upp safn um upphaf, sögu og þróun Reykjavíkur frá landnámi til okkar dags.“

Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar verður því falið að ganga frá kaupum á Aðalstræti 10 af Minjavernd hf. Umsamið kaupverð er rúmar 260 milljónir króna og skal koma af handbæru fé.

Sýning um sögu og þróun byggðar í Reykjavík

Þá samþykkti borgarráð einnig að verja 150 milljónum króna til að setja upp sýningu um Reykjavík í húsnæðinu.  
Jafnframt var samþykkt að verja 40 milljónum króna til að bæta aðgengi fatlaðra að húsinu og vegna bættrar salernisaðstöðu. Samanlögð fjárveiting til verkefnisins er 190 milljónir. 

Minjavernd  hf. hefur staðið myndarlega að varðveislu Aðalstrætis 10 og byggði m.a. nýtt hús og tengibyggingu úr gleri að baki hússins sem tengir gamla húsið við það nýja. Undir nýja húsinu við Aðalstræti 10 er góður kjallari og er mögulegt að tengja hann við sýningarrými Landnámssýningarinnar undir Aðalstræti 16.

Hugmyndin er að tengja nýju sýninguna sérstaklega við sögu og minjar í næsta nágrenni Aðalstrætis, þ.e. minjar sem fundist hafa í Víkurgarði og við Lækjargötu. Gert er ráð fyrir að sýningin opni í september 2018.

Skipulagssamkeppni um Víkurgarð

Þá hyggst borgin bæta yfirbragð Víkurgarðs þannig að hlutverk hans sem gamals kirkjugarðs og skrúðgarðs verði sýnilegra en nú er. Verður garðurinn tengdur við þær sýningar sem fyrirhugað er að setja upp í Aðalstræti.

Umhverfis- og skipulagssvið mun gangast fyrir skipulagssamkeppni um garðinn í samráði við Minjavernd en mikilvægt er að hægt sé að nota garðinn á fjölbreyttan hátt en gera sögunni hátt undir höfði á sama tíma.

Hugmyndasamkeppni um Víkurgarð verður sett af stað fljótlega eftir áramót og gert er ráð fyrir að hugmyndir liggi fyrir vorið 2018. Framkvæmd og ábyrgð samkeppninnar verður í höndum umhverfis-og skipulagssviðs með aðkomu Borgarsögusafns og Minjastofnunar.