Borgin á góðri siglingu að sjálfbæru samfélagi

Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármálaskrifstofu, Karen Björk Eyþórsdóttir fjármálaráðgjafi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir deildarstjóri upplýsinga- og gagnadeildar með gæðavottun fyrir seiglu borgarinnar.
Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármálaskrifstofu, Karen Björk Eyþórsdóttir fjármálaráðgjafi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir deildarstjóri upplýsinga- og gagnadeildar með gæðavottun fyrir seiglu borgarinnar.

Reykjavík hefur síðastliðin ár unnið að því að mæla samfélags-, efnahags- og umhverfislega sjálfbærni borgarinnar með notkun yfir 200 alþjóðlegra mælikvarða sem gefa mynd af því hversu sjálfbær borgin er og getum við með mælingum borið okkur saman við yfir hundrað aðrar borgir heims, sem einnig notast við þessa sjálfbærnimælikvarða.

Mælikvarðarnir eru hluti af þremur ISO stöðlum sem Reykjavík hefur skuldbundið sig til að innleiða og er þeirri innleiðingu nú lokið. Borgin hefur hlotið hæstu gæðavottun fyrir þá vinnu og er meðal fyrstu borga heims til þess að innleiða alla þrjá staðlana. Verkefnið hófst árið 2020 og felst í vottun á þjónustu- og lífsgæðastaðlinum ISO 37120, snjallborgarstaðlinum ISO 37122 og ISO 37123 um seiglu borga (e. Resilient Cities). Niðurstöður Reykjavíkur verða kynntar á nýju ári.

Mælingar á seiglu borgarinnar

Alþjóðlegu samtökin World Council on City Data (WCCD) aðstoða borgina við þessa vinnu og hafa nú boðið Reykjavík þátttöku í frekari þróun við gagnasöfnun þriðja staðalsins, seiglustaðalsins ISO 37123, sem mælir seiglu borga og getu þeirra til þess að takast á við allskyns áföll, og að hagnýta niðurstöður mælinga. Borgarráð samþykkti á fundi sínum þann 17. nóvember sl. að samþykkja boðið. Verkefnið verður í samstarfi við þær borgir sem náð hafa svipuðum árangri og Reykjavík og er það unnið á vettvangi United Nations Office for Disaster Risk Reduction (UNDRR).

ISO staðlar mæla árangur til sjálfbærni

Græna planið er sú framkvæmd sem vegur þyngst í þróun Reykjavíkurborgar til sjálfbærni. Hún byggir á skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Græna planið snýst um öfluga fjárfestingaráætlun í grænum samgöngum, innviðum, hverfum, nýsköpun og störfum sem munu gegna lykilhlutverki í því að auka lífsgæði fólks í borginni auk þess að gera Reykjavík að betri stað til að búa og starfa í. Meðal aðgerða sem nú standa yfir má nefna þéttingu byggðar, Borgarlínu, stuðning við vistvænar samgöngur og stafræna þróun í þjónustu borgarinnar. ISO staðlana er hægt að nota við árangursmælingar tengdar Græna planinu.

Mælikvarðarnir koma líka að gagni við stöðutöku og árangursmælingar sem tengjast Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna, en Heimsmarkmiðin voru samþykkt árið 2015 af 196 löndum sem sameiginleg aðgerðaráætlun fyrir sjálfbærari heim. Heimsmarkmiðin eru umgjörð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og munu niðurstöður ISO mælinga vinna með og skýra stöðu borgarinnar með tilliti til þeirra.