Borgin gengur frá kaupum á Vörðuskóla

Skóli og frístund Fjármál

""

Borgarráð hefur heimilað að gengið verði frá kaupum Reykjavíkurborgar á hlut ríkisins í Vörðuskóla á Skólavörðuholti. Reykjavíkurborg hyggst nýta bygginguna fyrir safnskóla á unglingastigi.

Vörðuskóli, sem hét áður Gagnfræðaskóli Austurbæjar til ársins 1974, stendur við Barónsstíg 34. Hann verður nú nýttur sem kennsluhúsnæði fyrir unglinga á ný en þó ekki fyrr en endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu. Tækniskólinn hafði húsnæðið til afnota til ársins 2019.

Forsaga málsins er sú að Reykjavíkurborg og ríkið gerðu með sér samkomulag árið 2005 um kaup Reykjavíkurborgar á eignarhlut ríkisins og var gengið frá kaupsamningi árið 2008. Í honum var gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg fengi bygginguna afhenta þegar lokið væri við fyrirhugaða viðbyggingu Iðnskólans á Skólavörðuholti. Nú er ljóst að sú viðbygging mun ekki rísa.

Reykjavíkurborg hafði áður óskað eftir því að ríkið skilaði byggingunni svo nýta mætti það undir skólastarfsemi. Aðilar hafa nú komist að samkomulagi um að ganga að fullu frá kaupum og afhendingu. Kaupverð er um 260 milljónir

Byggingin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins og var hún tekin í notkun 1949. Húsnæðið er 3.230 fermetrar að stærð með íþróttasal og búningsklefum.