Borgin fær styrki til að spyrna við heimilisofbeldi

Velferð Mannréttindi

""

Reykjavíkurborg hefur fengið styrki frá félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra sem lið í því að auka þjónustu við viðkvæma hópa sem verða fyrir áhrifum vegna Covid-19 faraldursins. Styrkirnir, sem eru þrír, fara í baráttu gegn heimilisofbeldi hjá Barnavernd Reykjavíkur, meðal aldraðra og hinsegin fólks.

Barnavernd Reykjavíkur fékk kr. 5.235.000 í styrk til að nota hugræna atferlismeðferð fyrir fjölskyldur sem beita börn sín ofbeldi. Fjölskyldum sem vísað er í meðferðina hafa þolað líkamlegt og andlegt ofbeldi eða hótanir þar um.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa fékk 500.000 kr. styrk til að prenta og dreifa kynningarefni um aldraða og heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi meðal eldri borgara hefur lítið verið rætt og oft á tíðum vel falið. Það er mikilvægt að opna umræðuna og beina sjónum sérstaklega að þessum hópi.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa fékk 450.000 kr. styrk fyrir prentun og dreifingu á bæklingnum Hinsegin fólk og heimilisofbeldi. Hann er þegar komin út og til á netinu og er einn sinnar tegundar á íslensku. Bæklingurinn lýsir veruleika hinsegin fólks í tengslum við heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir birtist oft með öðrum hætti en það sem gagnkynhneigt fólk verður fyrir. Bæklingurinn fjallar um mismunandi birtingamyndir heimilisofbeldis innan ýmissa hópa hinsegin samfélagsins.