Borgin fær styrk til að þróa auðkennislausnir knúnar gervigreind og bálkatækni

Velferð Fjármál

""

Evrópusambandið styrkir Reykjavíkurborg til að gera tilraunir með auðkennislausnir sem knúnar eru gervigreind og bálkatækni. Tilraunirnar eru liður í vegferð Reykjavíkur að stafrænum umbreytingum þjónustu og stjórnsýslu.

Reykjavíkurborg hefur ásamt 16 evrópskum samstarfsaðilum hlotið styrk úr rannsóknar og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins til að þróa auðkennislausnir sem eru knúnar gervigreind og bálkatækni. Heildarstyrkur verkefnisins er fjórar milljónir evra en Reykjavík fær í sinn hlut 236,250 Evrur um 36,5 milljónir króna sem verður nýtt sem nýtist til tilrauna með auðkennislausnir á völdum samráðsgáttum Reykjavíkurborgar. Verkefnið, sem ber heitið IMPULSE, hófst í byrjun febrúar 2021og lýkur í byrjun árs 2024.

Auk þess að gera tilraunir með auðkennislausnir felst í verkefninu að rannsaka áskoranir sem tengjast innleiðingu á gervigreind og bálkatækni hjá hinu opinbera.

Í verkefninu mun Reykjavíkurborg greina gæði innleiðingarferla út frá sjónarmiðum persónuverndar, tækniþátta, staðla, siðferðis og samfélagssjónarmiða og annarra rekstrarþátta og sjónarmiða sem hafa ber í huga við innleiðingu og notkun slíkrar tækni.

IMPULSE verkefnið hefur beina vísan í Græna Planið sem er samfélags- og efnahagslegt átak borgarinnar til að bregðast við heimsfaraldri kórónuveiru en hluti þess snýst um fjárfestingu í stafrænni umbreytingu á þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

IMPULSE er jafnframt nýjasta verkefnið í stækkandi Evrópuverkefnasafni Reykjavíkurborgar. Meðal annarra Evrópuverkefna má nefna lýðræðisþróunarverkefnið PaCE, orkuskiptaverkefnið SPARCS og velferðartækniþróunarverkefnið Net4AgeFriendly. Þátttaka í Evrópusamstarfi og sókn í styrkveitingar úr sjóðum Evrópusambandsins er liður í stefnu borgarinnar að efla alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar í Reykjavík sem er mikilvægt innlegg á grænni vegferð Reykjavíkurborgar og í því að efla nýsköpun og fjölbreytni atvinnulífs til framtíðar.

Nánar um verkefnið