Borgarstjórn samþykkir göngugötur allt árið

Samgöngur Umhverfi

""

Samþykkt var í borgarstjórn í dag með 21 atkvæði af 23 að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið ásamt götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur.

Samkvæmt tillögunni sem samþykkt var í borgarstjórn í dag eiga Laugavegur og Bankastræti að verða göngugötur allt árið.

Sviðinu verður jafnframt falið að útfæra endurhönnun á göngusvæðunum með öryggi og vellíðun gangandi vegfarenda í huga og vandaða borgarhönnun að leiðarljósi.  Útfærslan verður gerð í samráði við notendur og viðeigandi hagsmunasamtök og sérstaklega hugað að aðgengismálum fatlaðs fólks.

Umhverfis- og skipulagssvið á einnig að finna góðar lausnir á skilvirkri og öruggri vörulosun á göngugötunum í samráði við verkefnisstjóra miðborgar og hagsmunaaðila.

Mikil ánægja hefur ríkt með göngugötur í miðborginni samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið meðal almennings. Í könnun sem framkvæmd var í júlí síðastliðnum töldu 71% svarenda að göngugöturnar hefðu jákvæð áhrif á mannlíf í miðborginni. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er eitt af meginmarkmiðunum að búa til lífleg og fjölbreytileg almenningsrými í borginni auk þess að skapa aðlaðandi borgarbrag og þykja göngugötur afar góð leið til að ná því markmiði.