Borgarstjórn samþykkir aðalskipulag og deiliskipulag á lóð Landspítala

Borgarstjórn samþykkti á aukafundi sem haldinn var í dag auglýstar tillögur að breyttu aðalskipulagi og deiliskipulagi á lóð Landspítalans við Hringbraut.

Undirbúningur að uppbyggingunni á lóðinni hefur staðið yfir í meira en 10 ár og fjölmargar skýrslur og úttektir hafa verið unnar um fyrirhugaða uppbyggingu: staðsetningu, byggingamagn og umferðarmál.
 
Málið hefur fengið viðamikla kynningu meðal almennings svo og umfjöllun í skipulagsráði.  Fjölmargar athugasemdir vegna deiliskipulagsins bárust borginni og nákvæm og ítarleg svör við öllum athugasemdum liggja nú fyrir. Borgarstjórn telur að þar sé með sannfærandi hætti sýnt fram á að staðsetning nýja spítalans sé skynsamleg, að umferðarmál séu ásættanleg og þörf á byggingarmagni vel rökstudd af uppbyggingaraðila.