Borgarstjóri svarar bréfi Eflingar

Stjórnsýsla Atvinnumál

""

Svar við bréfi um breytta tilhögun viðræðna Eflingar við Reykjavíkurborg.

Ég vísa til opins bréfs dagsetts í gær um stöðu og næstu skref í kjaraviðræðum Reykjavíkurborgar og Eflingar. Um leið og ég tek undir að málið er brýnt og ljúka þarf samningum hið fyrsta vil ég undirstrika mikilvægi þess að vinna við það haldi áfram í samræmi við lög og þær reglur sem á þessu sviði gilda. Umboð samninganefndar Reykjavíkurborgar er skýrt sem og vilji hennar til samningaviðræðna. Þá hefur samninganefndin eindregið hafnað því að trúnaður hafi verið brotinn af hennar hálfu.

Forsendur nýrra kjarasamninga eru þær sömu og lagðar voru til grundvallar við gerð Lífskjarasamningsins, líkt og í öllum þeim kjarasamningnum sem lokið hefur verið að undanförnu. Rík samstaða er um það innan samfélagsins alls að forsendur Lífskjarasamningsins haldi. Viðmiðið um að lægstu laun hækki umfram önnur laun er skýrt og um það er samstaða. Reykjavíkurborg er þegar tilbúin til samninga á forsendum Lífskjarasamningsins. Jafnframt vil ég að fram komi að Reykjavíkurborg hefur frá upphafi þessara samninga lagt áherslu á að þeir nái til útfærslu á styttingu vinnuvikunnar enda hefur borgin verið í fararbroddi í þeirri vinnu á landsvísu með umfangsmiklu tilraunaverkefni.

Sjálfur er ég tilbúinn til að gera það sem í mínu valdi er til að flýta því að samningar náist en um leið vil ég ekki gera neitt sem grefur undan umboði samninganefndarinnar til að klára kjarasamninga. Það þjónar ekki tilgangi að færa samningaviðræðurnar úr hefðbundnu og lögformlegu ferli eins og lagt er til í bréfi þínu.  Í því ljósi mun samninganefnd Reykjavíkurborgar óska eftir því við ríkissáttasemjara að viðræður verði hafnar á ný á grundvelli 35. gr. laga nr. 80/1938.