Borgarstjóri Seattle heimsækir Reykjavík

Borgarstjórahjón í Höfða. Frá vinstri, Bruce Harrell og Joanne Harrell, Arna Einarsdóttir og Dagur B. Eggertsson
Borgarstjórahjón í Höfða. Frá vinstri, Bruce Harrell og Joanne Harrell, Arna Dögg Einarsdóttir og Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók á móti Bruce Harrell borgarstjóra Seattle ásamt 40 manna viðskiptasendinefnd frá borginni í Höfða í gær.

Heimsóknin er hluti af ferð Greater Seattle Chamber of Commerce og var Reykjavík fyrsti áfangastaður nefndarinnar, sem fer svo til Oslóar og Bergen.

Harrell borgarstjóri fer fyrir sendinefndinni, sem fundar með ýmsum leiðtogum í íslensku atvinnulífi og nýsköpunargeiranum. Sendinefndin mun einnig eiga fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands á Bessastöðum.

Sterk vináttutengsl eru milli Reykjavíkur og Seattle, en borgirnar gerðu með sér systurborgarsamning árið 1986. Seattle var sérstakur gestur Reykjavíkurborgar á Menningarnótt árið 2011, og er mikill áhugi hjá borgarstjórunum að treysta enn frekar tengsl á milli borganna á sviði viðskipta og menningar.