Kvikmyndaleikarinn og grínistinn Russell Brand kom til fundar við Jón Gnarr borgarstjóra í dag. Brand var með tvær sýningar með uppistandi í Hörpunni en óskaði eftir því að fá að heimsækja borgarstjóra og taka viðtal við hann.
Russell Brand er heimsþekktur fyrir kvikmyndaleik og hefur ferðast um allan heim með uppistand sem hann nefnir Messiah Complex. Í sýningunni fer hann inn á trúarbrögð og hetjur mannkynsögunnar með grínið að vopni. Hann lauk heimsferð sinni með tveimur lokasýningum hérlendis í Hörpu og var uppselt á báðar sýningar.
Brand óskaði eftir því að fá að hitta borgarstjóra. Hann kom í Ráðhús Reykjavíkur í dag til að hitta Jón Gnarr og áttu þeir tveggja klukkustunda fund þar sem þeir ræddu um hin ýmsu mál og tók Brand viðtal við Jón. Að loknum fundi hélt Brand út á Keflavíkurflugvöll þaðan sem hann flýgur heim til Bretlands.