Borgarráð samþykkir að leggja til fjármagn vegna Covid-19

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum sem lauk á ellefta tímanum í morgun að leggja til fjármagn vegna Covid-19 veirunnar, m.a. vegna aukinna þrifa.

Einkum er um að ræða aukaframlög vegna aukinna þrifa í stofnunum borgarinnar. Sérstök áhersla verður lögð á aukin þrif í stofnunum og starfsstöðum sem þjónusta og vista heilsufarslega viðkvæma einstaklinga. Fagsviðum og stofnunum þeirra er falið að gera aðgerðaráætlanir um hvernig staðið verði að auknum þrifum og að leggja mat á áætlaðan viðbótarkostnað vegna þessa. Fjármála- og áhættustýringarsviði er falið að halda með heildstæðum hætti utan um kostnaðarmatið.



Neyðarstjórn Reykjavíkur virkjaði viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir hættustig almannavarna á föstudaginn í kjölfar fyrsta staðfesta smitsins vegna COVID-19. Neyðarstjórn hefur fundað daglega síðan. Unnið hefur verið að því að koma nauðsynlegum upplýsingum sem fyrst til starfsfólks borgarinnar í nánu samstarfi við almannavarnir.

Neyðarstjórn býr m.a. að því að fyrir tæpum mánuði var haldin æfing vegna heimsfaraldurs inflúensu og viðbragðsáætlanir uppfærðar.



Borgarráð hvetur jafnframt starfsfólk borgarinnar til að fylgjast vel með fyrirmælum landlæknis og heilbrigðisstarfsfólks m.a. um sóttvarnir, almenna umgengni og þrif. Þar sem búið er að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna faraldurs kórónaveirunnar Covid-19, leggur borgarráð áherslu á nauðsyn þess að þjónusta borgarinnar sé órofin og örugg eins og nokkur kostur er og í samræmi við viðbragðsáætlanir borgarinnar.



Meðal þess sem er afar brýnt við núverandi aðstæður er að þrif séu fullnægjandi á öllum þeim stöðum sem Reykjavíkurborg og einkaaðilar reka og þjónusta sé til staðar fyrir einstaklinga og hópa sem teljast heilsufarslega viðkvæmir. Mikilvægt er að fyrirmælum heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og tilmælum almannavarna á hverjum tíma sé fylgt í því skyni.

Yfirstandandi verkfall í borginni gerir þessa stöðu sérstaklega alvarlega þar sem fyrir liggur að almennum þrifum er nú þegar ábótavant á vissum stöðum auk þess sem sorp er farið að safnast fyrir bæði við heimili fólks og í borgarlandinu. Reykjavíkurborg leggur nú allt kapp á að vinna það upp á undanþágum sem hafa fengist vegna sorphirðu og heimaþjónustu velferðarsviðs. Sorphirða í Breiðholti hófst í morgun. Borgarráð leggur áherslu á að áfram verði unnið markvisst að því að búa starfsemi borgarinnar og borgarbúa undir frekari þróun mála.