Borgarlína í framkvæmd 2020

Samgöngur Skipulagsmál

""

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um fjárfestingar í stofnvegum og hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á BSÍ í dag. 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri  í Reykjavík ásamt bæjarstjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að hefja viðræður um fjárfestingar  í stofnvegum og hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingunni sem var undirrituð á BSÍ kemur fram að stofnaður verði verkefnahópur undir forystu Hreins Haraldssonar fyrrverandi Vegamálastjóra sem mun skila tillögum 15. nóvember nk.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að undirritaðir aðilar eru sammála um að stefna skuli að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum með fjölbreyttum ferðamátum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Hópurinn taki tillit til markmiða í samgönguáætlun 2018-2033, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum 2018-2030, þ.m.t. orkuskiptum, svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins (Höfuðborgarsvæðið 2040) og áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029.

Hópnum er ætlað að skila tillögum sem eyða muni flöskuhálsum, til þess að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að framkvæmdir við hágæða almenningssamgöngur hefjist 2020. Þá verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir, m.a. með nýrri gjaldtöku ríkis og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.  

Niðurstöður hópsins verða svo lagðar fyrir ríkisstjórn og bæjarstjórnir og borgarstjórnir til staðfestingar en þær tillögur sem kalla á breytingu á samgönguáætlun munu fara til Alþingis.