Borgarbúar hvattir til að nýta sér rafræna þjónustu

Covid-19 Stjórnsýsla

""

Í ljósi nýjustu tilmæla frá Embætti landlæknis og Almannavörnum verða nú breyttar áherslur í þjónustu Reykjavíkurborgar.

Það er markmið borgarinnar að veita sem besta þjónustu á þessum krefjandi tímum og við hvetjum alla til að kynna sér vel þær tímabundnu breytingar gerðar hafa verið á þjónustu borgarinnar. 

Frá og með þriðjudegi 24. mars er Ráðhús Reykjavíkur lokað fyrir öðrum en starfsfólki og nauðsynlegum gestum þess. Allar gestakomur, bæði í Ráðhúsi og á Höfðatorgi, skulu takmarkaðar við nauðsynleg erindi og fundi. Þeir aðilar sem eiga bókaðan fund eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við sinn gestgjafa til þess að fá aðstoð.

Þjónustuver Reykjavíkurborgar

Þjónustuver að Höfðatorgi er opið með óbreyttu sniði að svo stöddu máli. Við hvetjum þó alla til að sækja sér aðstoðar með rafrænum hætti ef mögulegt er. Hægt er að hafa samband við þjónustuverið í gegnum síma, vefspjall og í gegnum tölvupóst.

Í gegnum Mínar síður á heimasíðu borgarinnar má finna allar rafrænar umsóknir borgarinnar svo og umsóknir á eyðublöðum.

Netspjall á reykjavik.is býður upp á beint samband við þjónustufulltrúa sem getur aðstoðað við allar fyrirspurnir sem þangað koma. 

Símsvörun er ýmist afgreidd til fulls hjá þjónustufulltrúa eða send áfram til starfsstöðvar eða sérfræðinga á sviðum/skrifstofum Reykjavíkurborgar.

Netfang þjónustuvers: upplysingar@reykjavik.is

Sími: 4 11 11 11

Afgreiðslutími:

Opið alla virka daga kl. 8:20 - 16:15.