Boðflennan úr Árbæ sigraði á hæfileikakeppninni Skrekk

þriðjudagur, 14. nóvember 2017

Átta skólar kepptu til úrslita á æsispennandi hæfileikahátíð í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Sjónvarpað var beint frá hátíðinni þar sem hátt í tvö hundruð  grunnskólanemar í borginni létu ljós sitt skína.

 • Fölskvalaus gleði sigurvegaranna
  Fölskvalaus gleði sigurvegaranna
 • Nemendahópurinn úr Árbæjarskóla sem sungu, dönsuðu og léku til sigurs á Skrekk 2017.
  Nemendahópurinn úr Árbæjarskóla sem söng, dansaði og lék til sigurs á Skrekk 2017.
 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti skrekksstyttuna við trylltan fögnuð nemenda í Árbæjarskóla.
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti skrekksstyttuna við trylltan fögnuð nemenda í Árbæjarskóla.
 • Boðflennan- siguratriði Árbæjarskóla í Skrekk
  Boðflennan - siguratriði Árbæjarskóla í Skrekk
 • Úr siguratriði Árbæjarskóla
  Úr siguratriði Árbæjarskóla

Svo fóru leikar að Komohewa - Boðflennan, litríkt og líflegt söngva- og dansatriði sem nemendur í Árbæjarskóla settu upp, fór með sigur af hólmi. Í öðru sæti urðu nemendurí Langholtsskóla og í því þriðja nemendur í Réttarholtsskóla.  

Hinir skólarnir fimm sem kepptu til úrslita á lokakvöldi Skrekks voru Austurbæjarskóli,  Breiðholtsskóli, Foldaskóli, Hagaskóli og Rimaskóli. Mikil spenna og gleði ríkti í salnum á meðan á keppninni stóð og hvöttu áhorfendur sína skóla óspart áfram. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti nemendum í Árbæjarskóla sigurlaunin, Skrekksstyttuna eftirsóttu, við mikinn fögnuð sigurvegara sem annarra. 

26 grunnskólar tóku þátt í Skrekk að þessu sinni og hátt í 1000 ungmenni dönsuðu, léku og sungu á stóra sviði Borgarleikhússins á þremur undanúrslitakvöldum áður en sjálf  úrslitahátíðin hófst. Aldrei hafa fleiri skólar verið með í Skrekk. Sérlegt ánægjuefni var þátttaka Klettaskóla í hæfileikakeppninni en nemendur þar sem glíma við ýmsa fötlun stigu nú í fyrsta sinn á stokk í keppninni.  

Dómnefnd skipuðu stjórnendur menningarhúsa í borginni; Borgarleikhússins, Þjóðleikhússins, Hörpu, Íslenska dansflokksins, ungmenni úr ungmennaráði Samfés og formaður dómnefndar var Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.