Bobby Fischers minnst á Reykjavíkurskákmótinu | Reykjavíkurborg

Bobby Fischers minnst á Reykjavíkurskákmótinu

fimmtudagur, 8. mars 2018

GAMMA Reykjavíkurskákmótið 2018 stendur nú sem hæst í Hörpu en mótið er einnig minningarmót um Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák.

  • Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, setur Gamma Reykjavíkurskákmótið í Hörpu
    Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, setur Gamma Reykjavíkurskákmótið í Hörpu. Með henni á myndinni er Gunnar Björnsson formaður Skáksambands Íslands.

Á morgun þann 9. mars hefði Bobby Fischer orðið 75 ára, en hann lést þegar hann bjó hér á landi í janúar árið 2008. Bobby Fischer var undra­barn í skák og varð heims­meist­ari eft­ir að hafa unnið þáverandi heimsmeistara Boris Spasski í ein­vígi ald­ar­inn­ar á Íslandi árið 1972.  Í tilefni þessara tímamóta verður frídagur á sjálfu mótinu og verður þá teflt á Fischer-slembi skákmóti sem verður jafnframt fyrsta slíka Evrópumótið.

Flestir sterkustu skákmenn sjálfs Reykjavíkurmótsins ætla einnig að taka þátt í því. Manngangurinn er sá sami en mögulegar upphafsstöður eru 960. Jafnframt verður sýning til heiðurs Fischer í Hörpu, hádegisfyrirlestrar tileinkaðir meistaranum og boðið upp á ferðir þar sem slóðir honum tengdar sýndar.

Um 230 keppendur eru skráðir til leiks á mótið og þar af um 30 stórmeistarar. Þeirra stigahæstur er úkraínski ofurstórmeistarinn Pavel Eljavov sem hefur 2711 skákstig. Næststigahæstur keppenda er Richard Rapport.

Meðal annarra keppenda má nefna Gata Kamsky fyrrum áskorenda Karpovs um heimsmeistaratitilinn, Indverjann sterka Baskaran Adhiban. Fyrrum sigurvegarar láta sig ekki vanta má þar nefna Indverjann Abhijeet Gupta og Hollendinginn Erwin L´Ami. 

Kvennasveitin skipa meðal annarra Sabina-Francesca Foisor, sem varð bandarískur meistari árið 2016 og löndur hennar Tatev Abrahamyan og Alinu L´Ami eiginkona Erwins. Laura Unuk, frá Slóvakíu, heimsmeistari stúlkna undir 18 er meðal keppenda.

Yngsti stórmeistari heims, Nodirbek Abdusattorv frá Úsbekistan teflir í fyrsta sinn á mótinu. Hann er næstyngsti stórmeistari skáksögunnar. Aðeins Sergei Karjakin, síðasti áskorandi Magnúsar Carlsen, hefur orðið stórmeistari yngri að árum. Indversku undradrengirnir Pragganandhaa og Nihal Sarin, sem slógu eftirminnilega í gegn í fyrra, eru meðal keppenda aftur í ár.  Sá fyrrnefndi hefur möguleika á að verða yngsti stórmeistari skáksögunnar.

Gamma Reykjavíkurskákmótinu lýkur þann 14. mars nk.