No translated content text
Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig frá Reykvíkingum að leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í tilefni kvenréttindadagsins laugardaginn 19. júní. Athöfnin hefst klukkan 11.00 með tónlistarflutningi Hólavallakirkjugarði.
Við leiðið flytur Alexandra stutt ávarp, flutt verður tónlist og tvær ungar stúlkur bera blómakrans að leiðinu og Alexandra leggur það á gröf Bríetar.
Dagskrá;
- 11.00 - Söngur - Salóme Katrín
- 11.05 - Arney Tinna og Katrín Tanja Aradætur ganga með kransinn og afhenda forseta borgarstjórnar Alexöndru Briem.
- 11.10 - Ávarp forseta borgarstjórnar - Alexandra Briem
- 11.20 - Söngur – Salóme Katrín
- 11.25 - Dagskrá lokið
Bríet Bjarnhéðinsdóttur átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928. Markmið félagsins var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn. Konur í Reykjavík buðu fram sérstakan Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sérframboð kvenna á Íslandi. Kvennalistinn vann stórsigur, kom öllum sínum fulltrúum að. Konurnar fjórar, þær fyrstu sem settust í bæjarstjórn Reykjavíkur, voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen. Málin sem þær börðust fyrir í bæjarstjórn voru m.a. sundkennsla, fyrir bæði kynin, og leikvellir fyrir börn. Vegna mikillar fátæktar í bænum voru mörg börn vannærð. Bríet Bjarnhéðinsdóttir beitti sér fyrir því í bæjarstjórn að börn fengju mat í skólanum. Matargjafir komust á og var þeim haldið áfram af og til fram á fjórða áratuginn. Bríet lést í Reykjavík árið 1940.