Blómsveigur lagður að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á kvenréttindadaginn

Mannréttindi Mannlíf

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, Lísbet Freyja Ýmisdóttir og Linda Ýr Guðrúnardóttir við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, lagði blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á kvenréttindadegi íslenskra kvenna í Hólavallakirkjugarði í morgun. 

Athöfnin í Hólavallakirkjugarði er ávallt hátíðleg og flutti Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, stutta tölu. Lísbet Freyja Ýmisdóttir og Linda Ýr Guðrúnardóttir báru kransinn að leiðinu þar sem Pawel tók við honum og lagði á leiði Bríetar. Að því loknu flutti Salóme Katrín Magnúsdóttir söngkona tvö lög.

Bríet Bjarnhéðinsdóttur átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928. Markmið félagsins var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.

Konur í Reykjavík buðu fram Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sér framboð kvenna á Íslandi. Þann 19.júní 1915 fengu íslenskar konur og vinnuhjú 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Aldurstakmarkið átti að lækka um eitt ár árlega þar til 25 ára aldri væri náð, sem var þá aldurstakmark karla en kosningarétturinn var hins vegar jafnaður með nýrri stjórnarskrá sem tók gildi árið 1920.

Nánari upplýsingar um kosningarétt kvenna má nálgast á heimasíðu Kvennasögusafns

Bríet lést í Reykjavík árið 1940.