Birta myndir af matnum á hverjum degi

Velferð

""

Í framleiðslueldhúsi velferðarsviðs á Vitatorgi eru matreiddar að meðaltali rúmlega níu hundruð máltíðir á dag að meðaltali. Nú geta notendur þjónustunnar og aðstandendur þeirra fylgst betur með því hvað er í matinn. Opnuð hefur verið Facebook-síða þar sem skoða má máltíð dagsins og matseðil vikunnar.

Í mötuneytinu á Vitatorgi, þar sem framleiðslueldhús velferðarsviðs er til húsa, borða um tvö hundruð manns í hádeginu á hverjum virkum degi. Enn fleiri, eða í kringum 500 talsins, snæða hádegismatinn í félagsmiðstöðvum fyrir fullorðna sem staðsettar eru víða um borg. Þar að auki fær fjöldi Reykvíkinga hádegismatinn sinn sendan heim að dyrum og hefur þeim fjölgað talsvert undanfarið sem velja þann kostinn en um 360 matarskammtar eru sendir í heimahús á virkum dögum. 

Nú hefur starfsfólk framleiðslueldhúss velferðarsviðs opnað Facebook-síðu þar sem hægt er að skoða matseðil vikunnar ásamt innihaldslýsingum, auk þess að þar er birt mynd af máltíð hvers dags. Það er Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhúss velferðarsviðs, sem stendur að baki síðunni. „Þetta snýst fyrst og fremst um að bæta þjónustuna við notendur og aðstandendur þeirra. Við viljum verða sýnilegri gagnvart fólkinu,“ segir hann.

Að undanförnu hafi mikil vinna verið lögð í að bæta hollustu matarins sem og auka fjölbreytni hans. Næringarfræðingur fari til að mynda vel yfir allar máltíðir í samræmi við næringarviðmið borgarinnar. Hann nefnir sem dæmi að fituinnihald hafi verið lækkað markvisst, prótein hækkað og nú séu allar sósur gerðar frá grunni. „Það er heilmikil kúnst, enda er viðskiptavinahópurinn okkar fjölbreyttur, allt frá 25 ára aldri upp í 105 ára, með ólíkar þarfir og smekk. Við reynum eftir fremstu getu að koma til móts við sem flesta.“

Eyjólfur bindur vonir við að sem flestir fylgist með Facebook-síðunni og hún verði lifandi vettvangur. Hún verði notuð til upplýsingagjafar auk þess að hægt verði að taka við ábendingum um það sem betur má fara í gegnum síðuna. Þá stefnir Eyjólfur að því að á síðunni verði leiðbeiningar um upphitun og framsetningu matarins. „Ég stefni að því að hafa þarna fleiri nytsamlegar upplýsingar, til dæmis um hlutfall fæðutegunda í hverjum skammti. Það er mikilvægt að notendur okkar hafi í huga að hlutverk okkar er að skaffa 30 prósent af næringarþörf dagsins. Það hefur borið við að fólk nýti máltíðirnar bæði í hádeginu og á kvöldin, en það getur leitt til næringarskorts ef ekki er um aðra næringu að ræða,“ segir Eyjólfur að lokum.