Bíó Paradís hlýtur aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar

Bíó Paradís hlýtur aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar. F.v. Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir formaður, Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís og Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri Bíó Paradís
Afhending Aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2024

Aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar var afhent í sjötta sinn á opnum fundi aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks sem fram fór á Sjóminjasafninu í gær. Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um gott aðgengi með fjölbreyttum hætti.

Viðurkenninguna hlýtur Bíó Paradís fyrir að hafa stórbætt aðgengi fatlaðs fólks með fjölbreyttar aðgengisþarfir að kvikmyndahúsinu. Húsnæði Bíó Paradís við Hverfisgötu var gert aðgengilegt og haldnar hafa verið sýningar sem henta sérstaklega einhverfu, heyrnarskertu og sjónskertu fólki. Í kvikmyndahúsinu eru einnig haldin Miðvikudagsbíó í samstarfi við Laugarás meðferðargeðdeild, Teymi Reykjavíkurborgar um alþjóðlega vernd og neyðarskýlin. Bíó Paradís fór af stað með þessar breytingar á bættu aðgengi að sýningum og húsnæðinu að eigin frumkvæði og eru til fyrirmyndar þegar kemur að inngildingu þjónustu.  

Hús fyrir öll

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, segir þetta mikilvæga viðurkenningu fyrir kvikmyndahúsið.

"Við sem stöndum að Bíó Paradís, gerðum okkur grein fyrir því frá upphafi að svona hús yrði að vera fyrir öll. Og við gætum farið ýmsar leiðir til að koma til móts við fólk með mismunandi þarfir. Það hefur svo verið þessi inngildingarhugsun sem hefur gert Bíó Paradís að því fjölbreytta og skemmtilega menningarhúsi sem það er, það eru gestirnir og hversu margbreytilegir þeir eru. Við erum rétt að byrja og við erum alltaf að hlusta eftir góðum hugmyndum um það hvaða hópa við getum boðið sérstaklega velkomna næst".

Bíó Paradís
Mynd: Bió Paradís

 

Viðurkenningunni er ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum. Gott aðgengi í víðum skilningi þess hugtaks er mikilvægt mannréttindamál og undirstaða þess að fólk með fjölbreyttar aðgengisþarfir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Því er mikilvægt að veita þeim viðurkenningu sem hafa stuðlað að bættu aðgengi og um leið að hvetja fleiri aðila til að huga betur að aðgengismálum.

Til hamingju Bíó Paradís!

Bíó Paradís