BIG BANG tónlistarhátíð fyrir ungt fólk í Hörpu

Menning og listir

Baksvipur á trommara með börn fyrir framan sig, frá Big bang í Hörpu

Á morgun, sumardaginn fyrsta, þann 20. apríl, verða frumlegir og fjölbreyttir tónlistarviðburðir um alla Hörpu á evrópsku tónlistarhátíðinni BIG BANG. Tónlistarhátíðin hefur það að markmiði að setja upplifun barna í forgrunn.

Harpa fyllist af tónelskum börnum sem fá að njóta fjölbreyttra tónlistarviðburða. Boðið verður upp á tónleika, innsetningar og tónlistartengdar smiðjur undir handleiðslu fagfólks í tónlist. 

Meðal þeirra sem koma fram eru trommulistahópurinn Muputo Mozambique, plötusnúðurinn Ívar Pétur þeytir skífum  á Baby rave og Los Bomboneros flytur ljúfa tóna.

Síðastliðinn vetur hafa börn víðsvegar um Ísland unnið að því að velja efni á svokallaða „Gullplötu“ til að senda út í geim, undir leiðsögn tónmenntakennara og þverfaglegs teymis listafólks og vísindafólks. Nú er komið að stóru stundinni, þegar lagið verður flutt af skólahljómsveit Grafarvogs og sungið af barnakórum. Lagið er samið af börnum fyrir geimverur og verður raunverulega sent út í geim. 

Öll ættu að finna sér eitthvað við hæfi á BIG BANG.

BIG BANG FESTIVAL