Betri þjónusta í sterkari skólum í Grafarvogi og nýsköpunarskóli á unglingastigi

Skóli og frístund

""

Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram tillögu um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi sem miða að því að styrkja til framtíðar skóla- og frístundastarf í hverfinu og bregðast við stöðugri fækkun nemenda á liðnum árum.

Tillagan felur í sér að tveir skólar í norðanverðum Grafarvogi verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk í Borgaskóla og Engjaskóla og einn sameiginlegur nýsköpunarskóli, Víkurskóli, verði fyrir nemendur á unglingastigi í 8.- 10. bekk. Í hverjum skóla yrðu um 260-270 nemendur. Skólahald í Korpu leggst af, a.m.k. tímabundið, en nemendum verður boðin skólavist í Engjaskóla, þar sem öll yngri skólabörnin úr Staðahverfi sameinast, og tryggður skólaakstur eða strætókort til frjálsra afnota, þar til fjöldi nemenda í Staðahverfi á aldrinum 6-12 ára hefur náð tölunni 150.

„Staðreyndin er sú að nemendum í Korpu hefur fækkað verulega undanfarinn áratug. Þar eru nú einungis 59 börn og hefur fækkað um meira en helming á síðastliðnum sjö árum. Börn í hverjum árgangi eru allt niður í fjögur talsins og það er ávísun á verri aðbúnað en við viljum bjóða okkar nemendum bæði námslega og félagslega. Meginatriðið er að geta boðið nemendum meiri fjölbreytni í námi og ekki síður félagslega, þ.e. að börnin hafi gott val þegar kemur að vinasamböndum og félagslegum tengslum,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.

  • Tillagan er liður í því að styrkja skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi til framtíðar, þar sem bregðast þurfi við verulegri fækkun nemenda á undanförnum árum. Það er óábyrgt af opinberum aðilum að halda úti rekstri menntastofnana sem ekki eru sjálfbærar einingar faglega og fjárhagslega.
  • Með sameinuðum unglingaskóla í Vík verður til mjög áhugaverður nýsköpunarskóli þar sem stefnan er að leggja sérstaka áherslu á frumkvæði nemenda, frumkvöðlanám, fjölbreytta sköpun og gagnrýna hugsun.
  • Nemendum í Korpuskóla hefur fækkað mjög á síðustu árum, úr 140 árið 2012 í 59 á þessu skólaári. Byggingin er hönnuð fyrir 170 nemendur. Kelduskóli - Korpu uppfyllir ekki lengur viðmið skóla- og frístundasviðs um nemendafjölda, sem kveða á um að lágmarksfjöldi nemenda í grunnskólum sé 140 í 1.-7. bekk.  Þetta kemur niður á getu skólans til að mæta síbreytilegum þörfum nemendahópsins. 
  • Ekki er útlit fyrir fjölgun barna í hverfinu á næstu árum og er því lagt til að Engjaskóli þjóni yngstu börnunum í Staðahverfi, a.m.k. þar til fjöldi barna hefur náð fyrrnefndu lágmarki.
  • Umhverfisvænn skólaakstur verður í boði fyrir yngstu nemendurna milli Korpu og Engjaskóla en þau eldri geta valið um skólaakstur eða strætókort. Leitað verður leiða til að nýta húsnæðið á Korpu áfram fyrir skóla- og frístundastarf í hverfinu, t.d. með samstarfi við sjálfstætt starfandi skóla.

„Unnið hefur verið gott starf á báðum starfsstöðvum Kelduskóla, í Vík og á Korpu, og við gerum okkur fulla grein fyrir því að tillaga okkar hefur áhrif á börnin í Staðahverfi og fjölskyldur þeirra. Þess vegna er skilyrði að ráðist verði í ákveðnar samgöngubætur til að bæta göngu- og hjólaleiðir og almenningssamgöngur.  Meginatriðið er hinsvegar að geta boðið nemendum meiri fjölbreytni í námi og félagsstarfi. Eitt af því sem skiptir miklu máli eru stærðir nemendahópa. Við trúum því að þessi tillaga muni skila sér í bættri menntun og velferð nemenda þó að aðeins lengra verði að fara í skólann en því verður mætt með skólaakstri og samgöngubótum. Svo verður mjög spennandi að þróa áfram öflugan nýsköpunarskóla á unglingastigi í þessu góða hverfi,” segir Skúli Helgason.

Áætlað er að fjárhagslegur ávinningur af þessari breytingu á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi frá og með skólaárinu 2020-2021 nemi um 200 milljónum á ári. Á móti kemur að  fyrirhugað er að ráðast í samgöngubætur í hverfinu til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og bæta þjónustu Strætó.