Í nótt voru fjölfarnar götur rykbundnar til að bæta loftgæði í borginni. Magnesíum klóríði sem reynst hefur vel til rykbindingar var úðað á stofnbrautir í Reykjavík og fleiri fjölfarnar götur eins og Bústaðaveg, Suðurlandsbraut og Grensásveg.
Vinna við rykbindinguna hófst um miðnætti og var lokið áður en morgunumferðin hófst.
Farið er í þessar aðgerðir að ráðum viðbragðsteymis um loftgæði en það er samstarfsvettvangur Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Veðurhorfur næstu daga auka líkur á svifryki einkum þar sem umferðarhraði er mikill.
Í liðinni viku voru stórir vélsópar sendir á stofnbrautirnar og tókst að sópa kanta á Suðurlandsbraut, Bústaðavegi, Grensásvegi, Skeiðavogi, Snorrabraut og Háaleitisbraut.