Bensínstöðvum fækki um helming á sex árum

Samgöngur Umhverfi

""

Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í borgarráði í gær hafa það að markmiði að  bensínstöðvum fækki um helming í Reykjavík á næstu sex árum eða fyrir árið 2025.

Borgarráð samþykkti í gær samningsmarkmið vegna áformaðra viðræðna rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðva í Reykjavík.

Lagt er til að stofnuð verði samninganefnd sem fái heimild til að leiða viðræður við lóðarhafa og rekstraraðila. Samningsmarkmiðin verða notuð til grundvallar í viðræðum um breytta notkun bensínstöðvalóða en stefnt er að fækkun bensínstöðva í Reykjavík. Er það í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og Loftslagsstefnu borgarinnar frá 2016 sem setur fram enn ákveðnari markmið til að undirstrika mikilvægi vistvænni ferðamáta og komandi orkuskipti í bílasamgöngum.

Í Loftslagsstefnunni segir orðrétt:

 „Unnin verði áætlun og skilgreindir hvatar sem miða að fækkun bensínstöðva. Markmiðið verði að dælum fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna fækki um 50% til ársins 2030 og þær verði að mestu horfnar árið 2040.“

Samninganefndin fær heimild til að leiða viðræður við lóðarhafa og rekstraraðila og gera drög að samningum m.a. um endurnýjun lóðarleigusamninga en þó ekki lengur en til tveggja ára.  Borgarráð gekk skrefi lengra og ákvað að færa markmiðið fram um fimm ár eða til ársins 2025.

Samningsmarkmið:

Lóðarleigusamningar um bensínstöðvar sem í dag eru útrunnir verði ekki endurnýjaðir lengur en til tveggja ára frá samþykkt markmiðanna í borgarráði.

Á þessum árum er hverjum lóðarleiguhafa heimilt að láta vinna tillögu að nýju deiliskipulagi, í samráði við Reykjavíkurborg, um mögulega breytta notkun á lóðinni.

Á grundvelli tillögu að breyttu deiliskipulagi verði gerður samningur um uppbyggingu á lóðinni, í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á nýjum uppbyggingarsvæðum, sem samþykkt voru á fundi borgarráðs þann 31. janúar 2019, sbr. einnig eldri samþykkt frá 27. nóvember 2014.

Í samræmi við samning um uppbyggingu á lóðinni og nýtt deiliskipulag, mun Reykjavíkurborg gefa út nýjan lóðarleigusamning.

Hafi nýtt deiliskipulag ekki tekið gildi á lóðinni og/eða samningar um uppbyggingu ekki náðst innan þessara tveggja ára þá mun uppgjör og viðskilnaður Reykjavíkurborgar við lóðarleiguhafa verða í samræmi við ákvæði gildandi/útrunnins lóðarleigusamnings.

Ef byggingarnefndarteikningar, í samræmi við nýtt deiliskipulag, hafa verið samþykktar innan þriggja ára, frá samþykkt samningsmarkmiða, verður einungis krafist greiðslu gatnagerðargjalda af hendi lóðarhafa og eftir atvikum framkvæmdaaðila vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. 

Lóðarleigusamningar um bensínstöðvar sem eru í gildi dag verði almennt ekki endurnýjaðir, með hefðbundnum hætti, við lok leigusamnings.

Þær bensínstöðvar sem Reykjavíkurborg er helst opin fyrir að skoða endurnýjun á lóðaleigusamningum á eru bensínstöðvar sem liggja við stofnbrautir og mögulega tengibrautir.

Lóðarhöfum þessara lóða verður heimilt að láta vinna hugmyndir að breyttu deiliskipulagi. Leiði það til uppbyggingar gilda sömu reglur og um útrunna lóðarleigusamninga. Mögulegt verður fyrir lóðarhafa að „flytja“ dælur frá núverandi staðsetningu yfir á nýja staðsetningu fjölorkustöðvar, sem tekur minna rými, til dæmis á bílastæðum við matvöruverslanir. Skilyrði fyrir slíkum flutningi er að samningar náist um lokun eldri bensínstöðvar og að heildarfjöldi dæla fyrir jarðefnaeldsneyti fækki.