Bensínstöðvum fækkar um þriðjung í Reykjavík

Umhverfi

""

Borgarráð hefur samþykkt að ganga til samninga við rekstraraðila bensínstöðva um fækkun bensínstöðva.  Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson skrifaði undir samning þess efnis við olíufélögin í morgun.

Borgarstjóri hjólaði milli þriggja bensínstöðva, Ægissíðu, Egilsgötu og Miklabraut, og skrifaði  undir samning við Festi og Krónuna, Olíuverslun Íslands og Haga og Skeljung um nýtt hlutverk bensínstöðvalóða í þeirra eigu.  Olíufélögin munu sjá um framtíð eða sölu sinna lóða en með það fyrir augum að lóðirnar nýtist undir íbúðir og atvinnuhúsnæði.

Á fimmta tug bensínstöðva eru í Reykjavík og þær búa yfir landrými sem gæti rúmað allt að 1400 íbúðir. Með nýrri samþykkt, er í upphafi horft til 12 stöðva í íbúðarhverfum víðs vegar um borgina þar sem reisa má a.m.k. 500 íbúðir. Búist er við að uppbygging hefjist á næstu árum.

Á lóðunum eru hugmyndir um að þar rísi íbúðarhúsnæði með eða án atvinnuhúsnæðis á jarðhæð. Með fækkun stöðvanna fækkar eldsneytisstöðvum í íbúðabyggð en stöðvar verða áfram starfræktar fyrst og fremst við stærri umferðargötur.  Jarðefnaeldsneytisdælum fækkar úr 109 í 73 eða um 33%.

Borgarstjóri sagði á Twitter í gær að; „Allir þessir samningar eru olíufélögunum til hróss. Saman erum við að feta okkur í átt að grænni framtíð með góðri borgarþróun. Borgin beitir samningum og grænum hvötum til að ná margþættum markmiðum: í loftslagsmálum, þéttingu byggðar,  eflingu íbúðahverfa og bættum lífsgæðum.“

Til viðbótar við lóðir á neðangreindum bensínstöðvum er samið við Haga um fjölorkustöð á Esjumelum og uppbyggingu á lóð við Stekkjarbakka 4-6 þar sem mögulega verða til uppbyggingarmöguleikar fyrir um 200-300 íbúðir.

Stöðvarnar, sem nú er samið um eru;

  • Álfheimar 49
  • Álfabakki 7
  • Egilsgata 5
  • Ægisíða 102
  • Hringbraut 12
  • Stóragerði 40
  • Skógarsel 10
  • Elliðabraut 2
  • Rofabær 39
  • Birkimelur 1
  • Skógarhlíð 16
  • Suðurfelli 4