Bensínstöðvar víkja fyrir þjónustu- og íbúðabyggð
Samningar hafa náðst við öll olíufélögin í Reykjavík um fækkun bensínstöðva í íbúahverfum í samræmi við stefnur borgarinnar í loftslags og lýðheilsumálum. Með þessu er borgin að flýta fyrir umbreytingum í átt að þéttingu byggðar með aukinni áherslu á vistvænar samgöngur.
Borgarráð samþykkti í gær samninga við Atlantsolíu og Dæluna um fækkun bensínstöðva inn í íbúahverfum. Líkt og með samningum við önnur olíufélög er gert ráð fyrir að lóðirnar verði nýttar undir byggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis.
Einstakt tækifæri til að þétta byggð
Á fimmta tug bensínstöðva eru í Reykjavík og þær búa yfir landrými sem gæti rúmað allt að 1400 íbúðir. Uppbygging hefst á næstu árum. Það er í forgangi að fækka stöðvum innan íbúðabyggðar og þar sem þær hafa áhrif á ásýnd og yfirbragð byggðar. Þá er horft til lóða þar sem eru sérstök tækifæri til að þétta byggð og efla þjónustu og almenningssamgöngur í hverfum.
Þessi þróun er í samræmi við Loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar þar sem eru skýr markmið um fækkun bensínstöðva í íbúðahverfum og ekki síst að draga úr því landrými sem þær þurfa.
Hagsmunir borgarinnar að leiðarljósi
Samninganefnd á vegum borgarinnar var falið að líta á þessu mál heildstætt og leiða viðræður við öll olíufélögin og rekstraraðila. Með þessi var talið að hægt væri að setja hagsmuni borgarinnar í forgang og flýta fyrir jákvæðri þróun byggðar.
Lóðaleigusamningar við olíufélög hafa gjarnan verið langtímasamningar, oft með flóknum uppkaupsákvæðum. Með því að semja við öll olíufélögin á svipuðum grundvelli var hægt að hraða umbreytingum en í stað bensínstöðva munu rísa íbúðabyggingar, með eða án atvinnuhúsnæði á jarðhæð. Olíufélögin eru skuldbundin til að fjarlægja mannvirki og hreinsa jarðveg innan ákveðins tíma. Tillögur þeirra að nýbyggingum verða unnar í samráði við borgaryfirvöld og munu fara í skipulagsferli og grenndarkynningar. Ef ekki næst samkomulag um uppbyggingu verða samningar uppsegjanlegir.
Gert er ráð fyrir að nýting og skipulag lóða taki mið af þéttingaráformum Reykjavíkurborgar og nýting lóðar í samræmi við það. Lóðarhafar samþykkja að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt á 5% íbúða í húsum á lóðinni og kvöð er á lóðunum um að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, sem auk Félagsbústaði verði stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.
Í nýgerðum samningi við Atlantsolíu um Háaleitisbraut 12 er nýbreytni þar sem samningsaðilar eru sammála um að veitt verði sérstöku fé til listskreytinga í almenningsrýmum á lóðinni eða á húsum á skipulagsreitnum. Hlutdeild Atlantsolíu til listskreytinga verður kr. 1.000.000 og borgin skuldbindur sig til að leggja fram jafnháa fjárhæð til listskreytinga.
Bensínstöðvum fækki um helming til 2030
Eldsneytisstöðvum fækkar í íbúðabyggð en stöðvar verða áfram starfræktar fyrst og fremst við stofnbrautir. Markmiðið verði að dælum fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna fækki um helming til ársins 2030 og að þær verði að mestu horfnar um 2040.
Leigusamningar fyrir rekstur bensínstöðva verða framvegis ekki gerðir lengur en til tveggja ára í senn og skoðar borgin helst endurnýjun vegna reksturs bensínstöðva við stofn- eða tengibrautir.
Samkomulag um hvern reit og fækkun dæla þarf einnig að skoða í samhengi við það heildar samkomulag sem gert var við olíufélögin, þar sem grundvallar markmið er að draga úr landþörf orkusölu og hún fari fram á svæðum þar sem hún er ásættanlegri af umhverfisástæðum.
Þegar er búið er að semja við félög um byggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis við;
- Háleitisbraut 12
- Álfheima 49
- Álfabakka 7
- Egilsgötu 5
- Ægisíðu 102
- Hringbraut 12
- Stóragerði 40
- Skógarsel 10
- Elliðabraut 2
- Rofabæ 39
- Birkimel 1
- Skógarhlíð 16
- Suðurfell 4
Til viðbótar við lóðir á ofangreindum bensínstöðvum er samið við Haga um fjölorkustöð á Esjumelum og uppbyggingu á lóð við Stekkjarbakka 4-6 þar sem mögulega verða til uppbyggingarmöguleikar fyrir um tvö til þrjú hundruð íbúðir.