Barnavernd ræður tvo skrifstofustjóra

Velferð

""

Búið er að ganga frá ráðningu tveggja skrifstofustjóra við Barnavernd Reykjavíkur og fyrir valinu urðu Katrín Helga Hallgrímsdóttir í stöðu skrifstofustjóra lögfræði og stjórnsýslu og Sigrún Þórarinsdóttir í stöðu skrifstofustjóra ráðgjafar.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir er lögfræðingur að mennt með BA í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hún lauk LL.M frá University of Chicago Law School og cand. juris frá Háskóla Íslands árið 2001. Katrín Helga er stundakennari og aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst í kröfurétti, stjórnarháttum, kaupum og sölu fyrirtækja. Hún var meðeigandi og framkvæmdastjóri BBA//Legal á árunum 2000-2013 með hléi frá 2006-2007 þegar hún starfaði hjá Straumi-Burðarás fjárfestingabanka á lögfræðisviði.

Katrín Helga á sæti í barnaverndarnefnd Reykjavíkur en hún hefur verið aðalmaður frá árinu 2018 en varamaður frá árinu 2008. Þá hefur Katrín Helga setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og annarra opinberra stofnana, m.a. hjá Samkeppniseftirlitinu, LÍN, Landsneti, Sjúkratryggingum Íslands o.fl. Auk þess hefur hún verið varamaður í Landskjörstjórn, skipuð varamaður í dómnefnd til að meta hæfni þeirra sem sækja um dómaraembætti og setið í stjórn Lögmannafélags Íslands o.fl. Hún var einnig sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands í aðstoð við hælisleitendur árið 2017–2018.

Katrín Helga hefur borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri, mannaráðningum, verkefnastjórnun, stefnumótun og öðru sem viðkemur rekstri. Einnig hefur hún stýrt fjárhagslegum niðurskurði, unnið að breytingastjórnun og margvíslegum stjórnarstörfum.

Sigrún Þórarinsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í félagsráðgjöf árið 2007 og öðlaðist þá starfsréttindi sem félagsráðgjafi. Auk þess hefur hún lokið diplómanámi í barnavernd við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands og lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur einnig sótt ýmis námskeið á meistaranámsstigi á sviði félagsráðgjafar og stundar nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu (MPA) við stjórnmálafræðideild HÍ með áherslu á mannauðsstjórnun. Því námi lýkur 2019.

Sigrún starfar í dag sem sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu.

Hún var félagsmálastjóri fjölskyldudeildar Fjarðabyggðar frá 2009–2017, yfirfélagsráðgjafi frá 2008–2009 og forstöðumaður á heimili fatlaðs fólk hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness frá 2004-2007.

Í þeim stjórnunarstöðum sem Sigrún hefur verið í hefur hún borið ábyrgð á daglegum rekstri, stjórnun og starfsmannamálum. Sigrún hefur umtalsverða reynslu af barnaverndarstörfum úr starfi sínu sem yfirfélagsráðgjafi og síðar félagsmálastjóri í Fjarðabyggð. Þá starfaði hún um nokkurra mánaða skeið sem félagsráðgjafi í Barnavernd Reykjavíkur og sem félagsmálastjóri í Hvalfjarðarsveit.