Við ljúkum Barnamenningarhátíð 2023 á Ævintýrahöllinni sem býður upp á spennandi menningardagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra dagana 22.- 23. apríl í Borgarbókasafninu Spönginni. Ævintýrahöllin hefur í gegnum tíðina flakkað á milli hverfa og nú er komið að Grafarvogi.
Fjölbreytt dagskrá alla helgina
Dagskráin í Ævintýrahöllinni hefst á fjölskyldujóga og svo taka við fjölbreyttir dagskrárliðir. Ýmsar föndursmiðjur verða á staðnum og geta börnin meðal annars búið til blöðrublóm, barmmerki og friðararmbönd.
Krakkakarókí verður á sínum stað fyrir þau sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og syngja af hjartans list. Dans Brynju Péturs tryllir lýðinn með kraftmiklum danssporum og Æskusirkusinn kemur á óvart.
Örleiksýningin Heimferð verður reglulega yfir daginn í húsbíl fyrir utan bókasafnið. Áhorfendum er boðið inn í húsbílinn til að leggja af stað í ótrúlegt ferðalag undir leiðsögn þriggja óvenjulegra persóna, í gegnum þúsund örsmá augnablik sem færa okkur aftur heim.
Hægt er að kynna sér betur dagskrána á vef Barnamenningarhátíðar.