Barnadagur í Viðey

Menning og listir

""

Sunnudaginn 1. júlí frá klukkan eitt til fjögur verður hinn árlegi Barnadagur haldinn í Viðey. Fjölbreytt dagskrá helguð börnum og fjölskyldum þeirra verður í eynni þennan dag og því tilvalið að skella sér í bátsferð út í Viðey og njóta þessa fallega útivistasvæðis.

Leikhópurinn Lotta mun skemmta gestum með söngvasyrpu á túninu fyrir framan Viðeyjarkirkju. Fjölskyldur geta tekið þátt í jóga og gongslökun með Arnbjörgu Kristínu jógakennara, skoðað lífríkið í fjörum Viðeyjar og tekið þátt í að poppa popp yfir opnum eldi. Húlladúllan sýnir listir sínar með húllahringi og það er aldrei að vita nema gestir rekist á fjörugar furðuverur á göngu sinni um eyna. Í Viðeyjarstofu verður hægt að kaupa grillaðar pylsur og fá ókeypis ís á meðan birgðir endast.

Dagskrá

  • 13:00  Fjölskyldujóga
  • 14:20  Húlladúllan og frumskógarferðalagið
  • 15:20  Leikhópurinn Lotta
  • 13-16  Fjörufjör. Komið með háfa og fötur.
  • 13-16  Poppað yfir opnum eldi.
  • 13-16  Fjörugar furðuverur
  • 13-16  Grillaðar pylsur til sölu við Viðeyjarstofu

Dagskráin stendur frá 13:00-16:00. Ferjurnar fara frá Skarfabakka yfir sundið samkvæmt áætlun,  eða eftir þörfum.

Athugið að oft myndast langar biðraðir í ferjuna og því er nauðsynlegt að mæta tímalega til að ná fyrsta atriði dagsins. Við mælum eindregið með því að kaupa miða í ferjuna daginn áður í miðasölu Eldingar.

Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.550 kr. fyrir fullorðna, 1.400 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 775 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.

Við bjóðum öll börn og fjölskyldur þeirra hjartanlega velkomin!

Athugið! Barnadagurinn er útiviðburður sem stjórnast af veðri. Ef spáin er slæm verður viðburðinum aflýst með dagsfyrirvara. Hægt er að fylgjast með því á facebooksíðu Viðeyjar.

Viðey er hluti af Borgarsögusafni, eitt safn á fimm frábærum stöðum.