Gróðurhús hafa verið sett upp við þrjá leikskóla í Reykjavík, Björtuhlíð, Reynisholti og Steinahlíð. Þetta eru svokölluð Bambahús sem hlutu styrk frá Reykjavíkurborg til að fara í samstarf við leikskólana um uppsetningu á gróðurhúsum úr endurnýtanlegu efni.
Gróðurhúsin eru sérstaklega hönnuð fyrir leikskólabörn, m.a. með tilliti til hæðar barna og virkrar þátttöku þeirra í rætkun. Samhliða því að þau voru sett upp á liðnu sumri fengu leikskólarnir einnig plöntur og kryddjurtir sem hentuðu vel fyrir byrjendur.
Í leikskólanum Björtuhlíð var húsið tekið formlega í notkun þegar börnin settu niður plöntur og kryddjurtir. Í skólanum er verkefnið tengt innleiðingu á læsisverkefni, náttúrúlæsi og umhverfismennt/sjálfbærni ásamt því að byggja upp orðaforð og alhliða þroska barnsins.
Í leikskólanum Reynisholti var mikill spenningur þegar húsið var sett niður og börnin fylgdust með af áhuga. Grænn litur var valinn á hurð hússins sem er bein tenging við gróðurinn, græna fingur og grænfána leikskólans. Í kerin voru settar plöntur, salat, kryddjurtir, spergilká, blómkál og fleira. Börnin fygldust með af áhuga og eftir sumarfrí mátti sjá hversu vel kálið hafði tekið við sér og fóru börnin með það í eldhúsið til nota í matinn. Eftir sumarfrí var jurtum bætt við í kerin t.d. baunir og forræktaðar gulrætur.
Í leikskólanum Steinahlíð hefur grænmetisræktun verið hluti af fagstarfinu um árabil. Með tilkomu Bambahúss verður meiri fjölbreytni í ræktuninni og einnig lengist ræktunartíminn og forræktunin verður auðvelduð. Börnin taka virkan þátt í að setja niður grænmeti og fleira í gróðurhúsið.