Bætt aðgengi og aukin yfirsýn yfir þjónustu við börn í Reykjavík

Fjórar stelpur skoða Íslandskortið í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Foreldrar og þau sem fara með forsjá barna í Reykjavík geta nú pantað viðtal hjá ráðgjafa í gegnum viðtalsbókunarkerfi borgarinnar. Einnig er hægt að sækja um samþættingu þjónustu barnsins í gegnum Mínar síður á vef Reykjavíkurborgar.

Hvort tveggja eru þetta mikilvægir áfangar í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og hluti af þeim áætlunum borgarinnar að gera alla þjónustu stafræna og aðgengilegri. Unnið er að því að koma öllum beiðnum um þjónustu yfir á stafrænt form til að auðveldara sé að halda utan um öll samskipti sem varða hvert barn. Þar með verður auðveldara fyrir foreldra að hafa yfirsýn yfir þá þjónustu sem barn þeirra fær hjá Reykjavíkurborg.

Samþætting þjónustu þýðir að allir sem veita þjónustu séu samtaka um hvaða þjónustu eigi að veita og á hvaða tímapunkti. Börn og þau sem veita þeim forsjá fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum. Þetta er hluti af innleiðingu farsældarlaganna en leiðarljós þeirra eru skýr – fylgstu með, bregstu við og komdu á samstarfi.

Þjónusta í nærumhverfi, án allra hindrana

Undanfarna mánuði hefur mikil vinna átt sér stað innan borgarinnar við að innleiða farsældarlögin sem tóku gildi í upphafi árs 2022. Lögin kveða á um að öll börn og fjölskyldur þeirra hafi aðgang að samþættri þjónustu án hindrana, í sínu nærumhverfi. Reykjavíkurborg innleiðir farsældarlögin í gegnum Betri borg fyrir börn. 

Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið skólans.

Lögð er rík áhersla á góð tengsl, upplýsingagjöf og samskipti milli fjölskyldna, deildarstjóra og starfsfólks í leikskóla, umsjónarkennara og annarra starfsmanna í grunnskóla, forstöðumanna og starfsfólks frístundaheimila og félagsmiðstöðva.

Fylgstu með, bregstu við og komdu á samstarfi.

Betri borg fyrir börn í takti við farsældarlögin

Þau Hákon Sigursteinsson og Hulda Björk Finnsdóttir eru verkefnastjórar farsældar hjá Reykjavíkurborg en þau starfa jöfnum höndum á skóla- og frístundasviði og á velferðarsviði. Sú tilhögun er mjög viðeigandi, því stóraukin samvinna sviðanna tveggja er ein forsenda þess að innleiðingin gangi sem skyldi.

Betri borg fyrir börn er í innleiðingu í öllum miðstöðvum borgarinnar sem byggir á samnefndu tilraunaverkefni sem fram fór í Breiðholti og gaf góða raun. „Það má segja að Betri borg fyrir börn sé leið borgarinnar til að koma betur til móts við börn og fjölskyldur, í þeirra nærumhverfi,“ segir Hákon og Hulda bætir við: „Betri borg fyrir börn er einmitt í takti við farsældarlögin en með þeim geta börn og forsjáraðilar þeirra óskað eftir samþættri þjónustu í nærumhverfi barnsins, án allra hindrana.“

Stóraukið samstarf allra sem koma að þjónustu við börn

Til að auka samstarf allra sem koma að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra var sú breyting gerð á stjórnskipulagi borgarinnar að sameina í miðstöðvum borgarinnar flest það fagfólk sem starfar með og fyrir börn, undir merkjum Betri borgar fyrir börn. Sú tilhögun rímar vel við það markmið að færa þjónustu nær börnum og fjölskyldum þeirra. Þannig starfar fagfólk náið saman, á sama stað, innan sama hverfis og á  auðveldara með að vinna með öðru fagfólki, til að mynda í leik- og grunnskólum hverfisins, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og inni á heimilum. Lögð er áhersla á að samræma vinnubrögð innan hverrar miðstöðvar  þegar kemur að málefnum barna. Það er gert til að samfella náist í máli hvers barns og tryggja að mál, þar sem barn eða forsjáraðilar hafa óskað eftir samþættingu, flytjist auðveldlega á milli þjónustustiga. Í upphafi hvers máls er áherslan á nærumhverfi barna í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Ef ekki fæst úrlausn í nærumhverfinu færist ábyrgð samþættingar með þeirri sögu sem fylgir til miðstöðva borgarinnar til frekari vinnslu og í sumum tilfellum barnaverndar. Á þessari vegferð er eftirfylgd á hendi tengiliðar, ráðgjafar á miðstöð eða málstjóra farsældar sem á að stuðla að samfellu í þjónustu við barnið og fjölskyldu þess.

Unnið að því að stytta boðleiðir

Til grundvallar verkefninu Betri borg fyrir börn liggur umfangsmikil könnun sem lögð var fyrir mikinn fjölda fagfólks sem starfar með börnum, hvort sem er í barnavernd, miðstöðvum, leik- og grunnskólum og frístunda- og félagsmiðstöðvum. Einnig var rætt við börn og forsjáraðila. Samantektin sýndi að kerfið væri of flókið, auka þyrfti samræmi í veitingu þjónustu, stytta boðleiðir og færa þjónustuna nær börnunum og fjölskyldum þeirra. „Út frá þessum niðurstöðum höfum við verið að útfæra ákveðnar leiðir og það má segja að við séum í miðri á með að láta þau plön ganga eftir,“ segir Hákon.