Aukið samráð við fatlað fólk um þjónustu 

Velferð

""

Borgarráð samþykkti í gær tillögur að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samhliða samþykkt reglnanna var fjárheimild velferðarsviðs aukin um 100 milljónir, meðal annars til að vinna á biðlistum eftir stuðningsþjónustu.

Helsta breytingin með nýjum reglum felst í því að ríkari áhersla er nú lögð á samvinnu við umsækjanda um það hvers konar stuðning hann þurfi á að halda. Stuðningsþörf verður ekki lengur metin á grundvelli stiga, sem ákvarða fjölda klukkustunda sem viðkomandi hefur rétt á að fá. Framvegis verður hún ákvörðuð í samtali umsækjanda og ráðgjafa um þörf á þjónustu. Þessi nálgun er talin geta mætt stuðningsþörfum umsækjenda betur og veitt meiri sveigjanleika. Þá er lögð áhersla á að einfalda alla umsýslu varðandi bæði nýjar umsóknir og samþykktar umsóknir með stafrænum lausnum. 

Reglurnar eru í samræmi við velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem miðar að því að þjónusta skuli vera einstaklingsmiðuð og heildstæð. Hún á að styðja við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólks, á heimili og í tómstundum. Samkvæmt henni á að taka tillit til ólíkra þarfa einstaklinga og leggja áherslu á sjálfræði og valdeflingu þeirra, svo þeir geti tekið þátt samfélaginu á eigin forsendum, tekið ákvarðanir og borið ábyrgð í eigin lífi. 

Við gerð reglnanna fóru fram samráðsfundir með hagsmunaaðilum, svo sem Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Geðhjálp, réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og aðgengisnefnd í málefnum fatlaðs fólks.

Nýju reglurnar eru í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þær taka jafnframt mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í honum segir meðal annars að skapa eigi fötluðu fólki skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. „Það er afar mikilvægt að við höfum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi. Lögfesting hans ætti að vera í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs. Nýju reglurnar taka gildi 1. febrúar 2022. Næstu mánuðir fara því í að undirbúa innleiðingu þeirra.  

36 milljónir í tilraunaverkefni um stuðning við einstaklinga með heilabilun

Á fundi borgarráðs í gær voru jafnframt samþykktar nýjar reglur um stuðningsþjónustu sem miða að eldri borgurum. Samhliða þeirri samþykkt var fjárheimild velferðarsviðs aukin um 36 milljónir króna og verður fjárveitingin nýtt í þróunarverkefni um stuðning við einstaklinga með heilabilun. Jafnframt voru samþykktar nýjar reglur um  beingreiðslusamninga og breytingar á reglum um félagslegt leiguhúsnæði. Allar breytingarnar eru í samræmi við velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. 

Í fundargerð borgarráðs má nálgast fylgigögn með tillögunum.