Áttu vin í vinnunni, áttu vin í skólanum?

Skóli og frístund

Barn á bókasafni.

Málþing um jákvæðan skólabrag var haldið í vikunni á Degi gegn einelti. Það var teymi um vinsamlegt samfélag á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur sem stóð fyrir og málþinginu sem ætlað var kennurum og starfsfólki í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi í borginni. Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður skóla- og frístundaráðs sló tóninn í opnunarávarpi sínu þegar hún spurði yfir salinn hvort allir ættu vin í vinnunni og mikilvægi þess að börn eigi vin eða vini í skólanum.

Í hvernig þorpi viljum við búa? Hvað getum við gert?

Höfnun og útilokun auka lýkur á vanda í framtíðinni

Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í félags- og tómstundafræði við Háskóla Íslands, fjallaði í sínum fyrirlestri um mikilvægi félags- og tilfinningagreindar og vináttu fyrir andlega heilsu. Hún undirstrikar að börnum sem er hafnað eða þau útilokuð eiga á hættu að eiga við margþætt vandamál í framtíðinni því þau missa af jákvæðri félagslegri upplifun og félagslegu samþykki.

Steingerður kastar upp því margkveðna að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og spyr svo: Í hvernig þorpi viljum við búa? Hvað getum við gert?

Of mörg börn einmana

Íslenska æskulýðsrannsóknin 2023 kom fram að 1370 börn á Íslandi upplifðu sig oft eða alltaf einmana síðustu tólf mánuði. Þegar slíkar upplýsingar eru meltar er mikilvægt að hafa í huga að það að eiga einn vin er verndandi þáttur gegn einelti. Í sömu rannsókn svöruðu 857 börn í 6., 8. og 10 bekk á Íslandi því til að þau hefðu orðið fyrir einelti 2-3 í mánuði, einu sinni í viku eða jafnvel nokkrum sinni í viku.

...félagsleg samskipti fólks eru ekki bara góð heldur nauðsynleg því það er þá sem eitthvað nýtt verður til.

Töfrar tapast í tölvuvæddri skilvirkni og hagkvæmni

Hvernig töfrar hversdagslífsins tapast í gegnum tól og tæki var mikilvægt inntak í fyrirlestri Viðars Halldórssonar prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þannig hafi margir fagnað því hvernig notkun fjarfunda og netþjónustu hafi aukist í covid því um leið hafi hagkvæmni og skilvirkni aukist. Viðar segir þó ýmislegt hafi tapast og undirstrikaði að félagsleg samskipti fólks væru ekki bara góð heldur nauðsynleg því það er þá sem eitthvað nýtt verður til. Hann tók dæmi um Teams fundi þar sem ekki er augnsamband, líkamstjáning missir marks, nándin er engin, tengsl verða mun síður til og að sama skapi tapast það jákvæða sem verður til í félagslegum samskiptum, töfrar sem styrkja og sameina fólk.

Mikilvægi góðs foreldrasamstarfs

Sigurður Sigurðsson hjá Heimili og skóla landssamtökum foreldra fjallaði um árangursríkt foreldra samstarf. Rannsóknir sýna að farsælt samstarf við foreldra eykur starfsánægju, einfaldar samskipti og bætir skóla- og staðarbrag.

Þarf alltaf að vera söngur?

Harpa Þorvaldsdóttir verkefnastjóri syngjandi skóla deildi reynslu sinni að því hvernig söngur eykur samkennd, hjálpsemi og minnkar árásarhneigð. Til viðbótar eykur söngur orðaforða og hjálpar við máltöku. Að þessu sögðu bendir Harpa á hvernig söngur ýtir undir inngildingu. Það er enginn leiður þegar hann syngur og það sýndi hún málþingsgestum með því að efna til samsöngs á staðnum.