Átta meistaraverkefni hljóta styrk

Skóli og frístund

Matartími á leikskóla

Átta meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum hlutu viðurkenningu skóla- og frístundaráðs í ár.

Fjölbreytt verkefni með mikilvægt innlegg í skóla- og frístundastarf

Markmið verðlaunanna er að auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum í borginni. Verðlaununum er einnig ætlað að hvetja meistaranema til að gera Reykjavík að vettvangi rannsókna, náms og starfs. Verðlaun fyrir hvert verkefni eru 250 þúsund krónur.

Meistaraverkefnin sem hlutu viðurkenningu eru fjölbreytt og mikilvægt innlegg í skóla- og frístundastarf og eru eftirfarandi ásamt umsögnum:

Ferilmöppur nýttar til að meta nám í leikskóla

Alyse Ebru Gureemir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Parent's Views on Children's Portfolios. Tekin voru viðtöl við foreldra í leikskóla í Reykjavík og leikskólastjóra viðkomandi leikskóla. Áhugavert er að sjá hvað foreldrar eru ánægðir með ferilmöppur barnanna og sjá þær í mismunandi ljósi. Kaflinn um niðurstöður er hagnýtur og ætti að nýtast til umræðna í leikskólum þar sem hugmyndir foreldranna eru ekki alltaf í samræmi við markmið og áherslur sem leikskólinn setur sér með gerð ferilmappa. Einnig geta niðurstöður nýst til að fá fram raddir foreldra með annað móðurmál en íslensku. Upplifun af hugmyndum foreldranna verður enn sterkari þar sem þær eru ræddar í tenglum við viðtal við leikskólastjóra um markmið og tilgang ferilmappa. Verkefni af þessu tagi hefur mikið gildi og getur vakið umræðu um mikilvægi þess að foreldrar allra barna í leikskóla geti komið að ferilmöppum og mati á námi barna sinna. Verkefnið vekur til umhugsunar um hvernig gera má nám í leikskóla sýnilegt fyrir foreldra og börn með það í huga að virkja þau til lýðræðislegrar þátttöku og að hlustað sé á hugmyndir barna og foreldra til að dýpka námið.

Starfsþróun stærðfræðikennara

Birna Hugrún Bjarnadóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Hugtakaskilningur í stærðfræði. Efling námssamfélags stærðfræðikennara á Menntafléttunámskeiði. Um er að ræða starfendarannsókn þar sem rýnt var í hvað einkennir þróun námssamfélaga stærðfræðikennara á námskeiði Menntafléttunnar og hvernig líkan hennar nýtist til að efla námssamfélög. Fylgst var sérstaklega með og fjallað um starfsþróun stærðfræðikennara í einum skóla á einu skólaári en mjög margt af því sem fram kemur um starfsþróun og innleiðingu og stuðning við námssamfélög í skólum er hægt að yfirfæra á aðra þætti skóla- og frístundastarfs. Einnig er fjallað um Menntafléttuna og hvernig hún nýtist í því að efla starfsþróun kennara en þau vinnubrögð eru að ryðja sér til rúms í starfsþróun fagfólks í skóla- og frístundastarfi þar sem markmiðið er að efla og styðja við námssamfélög fagstétta á þessum vettvangi.

Í innleiðingarferli skiptast á skin og skúrir

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Ég er með hugmynd! Starfendarannsókn verkefnastjóra á innleiðingu þróunarverkefnis um sköpunarsmiðjur. Markmið höfundar með starfendarannsókninni var að varpa ljósi á hvað einkenndi innleiðingu Austur-vestur verkefnisins sem var þróunar- og samstarfsverkefni þriggja gunnskóla í Reykjavík og hlutverk höfundar sem verkefnastjóra í því. Höfundur sýnir mikinn metnað í starfi með þátttöku í samstarfsverkefninu og hefur náð á athyglisverðan hátt að varpa ljósi á það skapandi ferli sem á sér stað þegar tilraunir eru gerðar í skólastarfi, hvaða hindranir geta komið upp og hvaða áskoranir fylgja slíku ferli. Allt ferlið er mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra kennara og varpar ljósi á hve gríðarlegur ávinningur það er fyrir kennara að rýna starf sitt og þróa starfshætti í átt til nýrra tíma. Höfundi tekst að skapa ríka og lifandi frásögn af innleiðingarferlinu þar sem skiptast á skin og skúrir. Hér er um bitastætt framlag að ræða sem eykur skilning á innleiðingarferli af þessu tagi.

Sögukörfur og brúður nýttar í málörvun

Hrefna Böðvarsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Sögur barna – Þróun starfshátta til eflingar hlustunarskilnings og tjáningarfærni leikskólabarna. Um er að ræða starfendarannsókn sem unnin er í leikskóla í Reykjavík. Verkefnið hefur hagnýtt gildi á þeim stað sem rannsóknin fór fram þar sem starfshættir viðkomandi deildar þróuðust og lögð var áhersla á lærdómssamfélag hjá starfsfólki þar sem unnið var að því að auka fagþekkingu á málþroska barna.Verkefnið er einnig hagnýtt í stærra samhengi. Höfundur kynnir ítarlega þá leið í málörvun barna að nota sögukörfur, einingakubba, brúður og aðra fylgihluti í tengslum við sögustundir og hlutverkaleik. Farið er vel yfir hvernig starfið þróaðist í samstarfi við starfsfólk sem getur nýst þeim sem hafa í huga að fara í einhverskonar þróunarstarf. Það er alltaf lærdómsríkt fyrir starfsfólk í leikskóla að skoða fjölbreyttar leiðir til að styðja við málþroska leikskólabarna.  

Húmor og sveigjanleiki reynast best

Magnea Arnardóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið „Þetta eru mjög mikilvæg ár“ – Um reynslu og styrkleika einstaklinga sem sinna stuðningi í leikskólum. Það fjallar um rannsókn höfundar á persónustyrkleikum einstaklinga sem sinna stuðningi við börn í leikskóla í Reykjavík og hvaða bjargir hafa reynst þeim einstaklingum vel til að sinna störfum sínum sem best. Hagnýtt gildi er mikið vegna þess hversu lítið hefur verið hugað að viðfangsefninu sem um ræðir og það er því sérlega ánægjulegt að Magnea bætir úr því hér með þessari rannsókn. Niðurstaðan sýnir glögglega hversu mikilvægt það er að allir sem í leikskólanum starfa skoði viðhorf, markmið og sýn á nemendur sem ekki fylgja jafnöldrum sínum eftir í þroska. Viðhorf sem unnið er að með innleiðingu Betri borgar fyrir börn og Farsældarlaganna. Rannsóknin er afar mikilvæg varðandi það að læra og skilja þarfir starfsfólks, leiðbeinenda, sérkennara, þroskaþjálfa o.fl. sem starfa við sérkennslu inni í leikskólunum. Rannsóknin sýnir að húmor og sveigjanleiki einstaklinga auk jafningjahandleiðslu, formlegrar og óformlegrar, á vettvangi hefur reynst þessum einstaklingum best í sinni vinnu í leikskólanum.

Markviss leiðsögn mikilvæg

Sesselja Ósk Vignisdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Góð leiðsögn – gulls ígildi, upplifun og reynsla kennaranema og nýliða í kennslu af leiðsögn. Verkefnið byggir á eigindlegri rannsókn sem ætlað er að gefa innsýn í þá leiðsögn sem fimmta árs kennaranemar í starfsnámi og nýliðar í kennslu á sínu fyrsta starfsári fá í þeim skólum sem þeir starfa við. Sjö af átta viðmælendum starfa við grunnskóla borgarinnar. Að mati prófdómara er hér um að ræða vel unnið verkefni sem varpar skýru ljósi á mikilvægi markvissrar leiðsagnar kennaranema og nýliða í kennslu. Þó svo að hér sé fjallað um leiðsögn við kennaranema í starfsnámi og nýliða í kennslu í grunnskólum er fjölmargt í fræðilegum kafla og niðurstöðum rannsóknarinnar sem má yfirfæra á móttöku nýliða í öðrum fagstéttum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar.

Mikilvægt að aðstoða börn með slaka félagsfærni

Steinunn Huld Gunnarsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Félagsfærni barna í leikskólum – „Við höfum trú á börnum“. Með eigindleg rannsóknaraðferð voru tekin einstaklingsviðtöl við sjö leikskólakennara. Um er að ræða áhugavert verkefni þar sem rýnt er í tækifæri leikskólans til þess að efla félagsfærni og sjálfsmynd barna í leikskólanum og auka þannig vellíðan og möguleika til að þroskast til framtíðar. Skoðað er hvort og hvernig leikskólakennarar nýta þekkingu sína og færni til þess að auka félagsfærni barna. Mikilvægi rannsóknarinnar felst í því að lagðar eru fram leiðir til að efla félagsfærni og sjálfsmynd og dregin fram vitneskja leikskólakennara um mikilvægi þess að aðstoða börn sem eru með slaka félagslega færni. Verkefnið sýnir fram á mikilvægi þess að það sé hlustað og talað við börn og að hugað sé að því rými sem börnum bjóðast í leikskólanum. Fjöldi barna og hávaði hefur áhrif á líðan barna, möguleika til samskipta og eflingu félagsfærni og sjálfsmyndar. Fram kom að leikskólakennarar eru mjög meðvitaðir um mikilvægi leiksins til þess að efla félagsþroska.

Þörf á aukinni menningarnæmi starfsfólks

Sulakshna Kumar fær viðurkenningu fyrir verkefnið Reynsla foreldra af erlendum uppruna í þátttöku í leikskólasamfélagi. Um er að ræða megindlega rannsókn meðal foreldra af erlendum uppruna um þátttöku í leikskólasamfélagi. Greint er frá sýn og reynslu þeirra af foreldrasamstarfi í íslenskum leikskólum. Niðurstöðurnar sýna mismunandi reynslu af leikskólastarfi. Þar spila inn í þættir eins og íslenskukunnátta foreldra, menning, tungumál og fyrri reynsla. Sumir foreldrar upplifðu sig tilheyra leikskólasamfélaginu og áttu góð samskipti við starfsfólk leikskólanna á meðan aðrir upplifðu stirð samskipti, áhugaleysi og neikvæðni í samskiptum. Flestum foreldrum fannst þörf á auknu menningarnæmni í starfinu og að starfsfólk væri upplýst um menningarlegan margbreytileika. Fram koma mikilvægar upplýsingar um hvernig hægt er að koma betur til móts við fjölbreyttar þarfir foreldra og fjölskyldna og veita öllum jöfn tækifæri. Niðurstöður rannsóknarinnar geta því tvímælalaust stutt stjórnendur og annað starfsfólk leikskóla í að bæta foreldrasamstarf við fjölbreyttan foreldrahóp.