Assan á batavegi

Íþróttir og útivist Mannlíf

""
Assan sem kom í Húsdýragarðinn í lok janúar er nú komin út eftir aðhlynningu innandyra að undanförnu. Í fyrstu var talið að assan unga væri vængbrotin en í ljós kom að hún hafði misst handflugfjaðrir af hægri væng og var því illa fleyg. 
Ferðamenn sáu ungan haförn í útjaðri Berserkjahrauns sem átti erfitt með flug þriðjudaginn 26.janúar. Hildibrandur Bjarnason  bóndi og synir hans í Bjarnarhöfn fréttu af fuglinum og létu vita. Eftir stuttan eltingarleik náðu feðgarnir með aðstoð sveitunga og Róberts Arnar Stefánssonar starfsmanns Náttúrustofu Vesturlands,  að handsama örninn daginn eftir.
 
Við fyrstu skoðun kom í ljós að um ungan kvenfugl var að ræða það er að segja össu sem var merkt sumarið 2015 í hreiðri. Talið var í fyrstu að hún væri vængbrotin en í ljós kom að hún var í góðum holdum en hafði af einhverjum óútskýranlegum ástæðum misst handflugsfjaðrirnar, átti því erfitt með flug og var nánast ósjálfbjarga.
 
Hún var flutt í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem hún átti að fá næði til að jafna sig svo hægt yrði að sleppa henni á ný. Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft yfirumsjón með að ákveða hvenær össunni verður sleppt og á meðan gafst gestum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins tækifæri til að berja fuglinn augum.
 
Margir gestir Fjölskyldu- og húsdýragarðsins þekkja Styrmishöll sem er inni á hreindýrastykkinu en sú aðstaða var einmitt reist undir storkinn Styrmi með stuðningi Umhverfisráðuneytis Íslands. Síðan þetta var hefur all nokkrum fuglum verið komið til heilsu á ný í þessari aðstöðu mest ránfuglar á borð við fálka, smyrla, uglur og auðvitað haferni í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.
 
Nú lítur assan vel út, hefur verið dugleg að éta og fjaðrir hennar farnar að taka á sig eðlilega mynd. Kristinn Haukur fuglasérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er vongóður á að það takist að sleppa össunni fyrr en síðar eða þegar hún hefur safnað þreki og kröftum til að takast á við lífið.