Áskoranir í velferðarþjónustu

Covid-19

""

Á velferðarsviði eru 135 starfsmenn í sóttkví og 5 í einangrun. 35 notendur sem búa í íbúðakjörnum og sambýlum eða fá þjónustu heim eru í sóttkví og einn íbúi í einangrun.

Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsvið segir sviðið leggja allt kapp á smitvarnir þar sem það sé mjög flókið að þjónusta íbúa í íbúðakjörnum sem eru smitaðir. Þegar svo er þá þurfi starfsfólk að fara í sóttkví og það þurfi að ráða nýtt fólk inn. Sviðið hefur unnið leiðbeiningarit í samstarfi við embætti Landlæknis um velferðarþjónustu á tímum Covid -19. Það tekur meðal annars til íbúðakjarna og sambýla.

Sviðið tók ákvörðun um að loka félagsmiðstöðvum og dagdvölum fyrir eldri borgara auk stærri starfsstaða fyrir fatlaða einstaklinga þegar neyðarstigi var lýst yfir þann 6. mars síðastliðinn. Einnig skammtímadvölum fyrir fötluð börn og unglinga.

Regína segir að mikið mæði á starfsfólki velferðarsviðs en í stað þeirrar þjónustu sem var lokuð eða skert hafi verið reynt að útbúa einstaklingsbundnar lausnir fyrir sem flesta.

Þegar loka þurfti skammtímavistun fyrir fötluð börn og unglinga og dagþjálfun fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga var lögð aukin áhersla á að fylgjast með þörfum hvers og eins, m.a. með því að bjóða smærri hópum í einu á starfsstöðvar. Auk þess fara starfsmenn inn á heimili einstaklinga með stuðning.

Velferðarsvið rekur 17 félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara og nú býðst þeim  sem hafa borðað í félagsmiðstöðvunum að fá heimsendan mat. Skammtar framleiðslueldhússins í heimsendum mat hafa aukist um 166 en nú eru 459 einstaklingar sem fá mat sendan heim frá eldhúsinu í Vitatorgi.

Loka þurfti dagdvöl fyrir heilabilað fólk á Vitatorgi og dagdvölinni í Þorraseli. Þessi ráðstöfun var endurskoðuð og á Vitatorgi er nú tekið á móti einstaklingum sem lífsnauðsynlegt er að rjúfa einangrun hjá. Þorrasel fylgir þeim einstaklingum eftir sem hafa sótt dagdvölina með símtölum og öðrum tilboðum um þjónustu og félagsskap.

Heimsóknarbann er á hjúkrunarheimilunum Droplaugarstöðum og Seljahlíð auk þess sem heimsóknir í þjónustuíbúðir í Seljahlíð eru ekki heimilar vegna sameiginlegra rýma þjónustuíbúðakjarnans og hjúkrunarrýma. Starfsfólk fylgist vandlega með líðan fólks og hvetur til síma- og tölvusambands við ættingja og vini.

Lítil  röskun hefur enn verið  í heimaþjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu en á fimmta þúsund einstaklingar og fjölskyldur fá þjónustu á heimilum sínum.  

Opnunartími hefur verið aukinn  í gisti- og neyðarskýlum auk þess að viðbótarrými hefur verið tekið á leigu á Grandanum, til að uppfylla betur viðmið um sóttvarnir.

Þessa dagana eru að hefjast umfangsmiklar úthringingar til íbúa sem búa einir og eru eldri en 85 ára og verður nýtt verkefni meðal annars kynnt sem eru símavinir og er unnið í samstarfi við Landsamband eldri borgara og Félag eldri borgara. Einnig munu sálfræðingar og aðrir starfsmenn skólaþjónustu sviðsins, hringja í foreldra barna sem þurfa á aðstoð að halda og kanna stöðuna.

Að lokum má geta þess  að á þjónustumiðstöðvum velferðarsviðs bjóða ráðgjafar upp á fjarfundi og stór hluti fjárhagsaðstoðar til einstaklinga er veitt í gegnum rafrænar lausnir.