Áskoranir í rekstri Reykjavíkurborgar

Fjármál

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur séð yfir tjörnina

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar fyrir 2022 er jákvæð um 6 milljarða króna en A-hluta neikvæð um 15,6 milljarða. Verðbólga og vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks hefur áhrif á uppgjör. Með markvissum aðgerðum í rekstri er stefnt að jákvæðri niðurstöðu A-hluta frá 2025.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 var lagður fyrir borgarráð í dag, 27. apríl og vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn þann 2. maí næstkomandi.

Áhrif verðbólgu

Verðbólga hefur mikil áhrif á uppgjör borgarinnar eins og á annan rekstur í landinu. Þá hefur Seðlabanki Íslands haldið áfram að hækka stýrivexti það sem af er þessu ári og standa þeir nú í 7,5%. Hærri fjármagnsgjöld má rekja til aukinnar verðbólgu sem var 9,9% á árinu en áætlun gerði ráð fyrir 3,3%.

Önnur frávik má rekja til breytinga á mati fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum sem var 14,5 milljarða króna umfram áætlun. Launakostnaður var 0,7 milljörðum undir áætlun, gjaldfærð hækkun lífeyrisskuldbindingar var 2,8 milljarðar króna umfram áætlun og annar rekstrarkostnaður var 4,1 milljarði hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartekjur A- og B-hluta námu samtals 223,4 milljörðum króna á árinu og voru 2,3 milljörðum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. 

Sligandi halli á rekstri málaflokks fatlaðs fólks

Þá gerðu áætlanir ráð fyrir áfangaleiðréttingu um þrjá milljarða króna frá ríkinu vegna vanfjármögnunar á málaflokki fatlaðs fólks, en ekki varð af henni. Á árinu 2022 varð 9,3 milljarða króna halli á þessum málaflokki hjá Reykjavíkurborg. Útgjöld vegna lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk eru 9,3 milljörðum meiri en þær tekjur sem borgin fær úr Jöfnunarsjóði til að mæta þeim. Þessi kostnaður hefur aukist mikið á undanförnum árum, sérstaklega í ljósi aukinnar þjónustuskyldu vegna laga frá árinu 2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samanlagður halli af málaflokki fatlaðs fólks í Reykjavík á árunum 2011-2022 nemur 35,6 milljörðum króna.

Graf sem sýnir rekstrarniðurstöðu A-hluta og rekstrarniðurstöðu A-hluta án halla af málefnum fatlaðs fólks.

Sem fyrr er langsamlega stærsti hluti útgjalda Reykjavíkurborgar tengdur þjónustu við börn í leik- og grunnskólum og velferðarþjónustu. Í samningaviðræðum við ríkið er lögð áhersla á að brúa bilið milli tekna og kostnaðar við að mæta þjónustuskyldu.

Breyttum aðstæðum mætt með aðgerðum

Þegar ljóst var að stefndi í að áætlanir myndu ekki standast vegna hækkandi verðbólgu og tafa á leiðréttingum frá ríkinu, voru í byrjun september 2022 samþykktar í borgarráði aðgerðir til að takast á við halla í rekstri og önnur áhrif erfiðra skilyrða í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar. Dregið var úr fjárfestingum og þar með lántökuþörf. Gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi aukinnar verðbólgu. Þá voru settar samræmdar reglur um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2027 sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember síðastliðinn tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu.

Skýr framtíðarsýn

Fjármálastefna Reykjavíkurborgar 2023-2027, sem samþykkt var samhliða fjárhagsáætlun, var undirbúin með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu og efnahagslegu ytra umhverfi borgarinnar.

Hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verður mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélags til lengri tíma, en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma. Ekki verður dregið úr öflugri sókn í uppbyggingu borgarinnar í samræmi við Græna planið og stefnumörkun þess. Skýr sýn verður á græna og vaxandi borg fyrir fólk, sjálfbæran rekstur og fyrirbyggjandi aðgerðir til að lágmarka fjárhagslega áhættu í rekstri borgarinnar.

Vaxandi borg

Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 3,1 % á árinu og borgin er í örum vexti. Áfram verður fjárfest í uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, viðhaldi og nýbyggingum fyrir grunn- og leikskóla og stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar.

Forgangsröðun fjárfestinga mun taka mið af borgarþróun, þéttingu byggðar og uppbyggingu nýrra hverfa með tilkomu Borgarlínu og að áformum um húsnæðisuppbyggingu verði fylgt eftir.

Áhersla verður lögð á að allar fjárfestingar verði metnar með tilliti til arðsemi og langtímaáhrifa þeirra á borgarsjóð, þar með talið afleiddan rekstrarkostnað, umhverfi og samfélag.

Tilkynning til Kauphallar Íslands 27. apríl 2023