No translated content text
Myndir/ARKÍS arkitektar
Ártúnshöfði-Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur og mun margt gerast þar á næstu árum. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta rísi allt að 7-8000 íbúðir og að þar geti búið allt að 20.000 borgarbúar.
Skipulagsvinnan er í gangi um þessar mundir en hún byggir á rammaskipulagi frá 2016 sem unnið var í kjölfar hugmyndasamkeppni. Hér er því verið að umbreyta athafna- og iðnaðarsvæði í íbúabyggð og þarf því meðal annars að skipta um jarðveg. Búast má við að flutningur á fyrirtækjum hefjist á næstu 2-3 árum. Fyrstu íbúðirnar gætu verðið tilbúnar jafnvel árin 2025 eða 2026.
Tillaga að þessu deiliskipulagi (2A) hefur nú verið samþykkt í borgarráði eftir auglýsingu og hægt er að undirbúa næstu skref í framhaldinu. Grænar áherslur eru í fyrirrúmi. Í bókun meirihlutans 11. júlí segir að samþykkt hafi verið skipulag fyrir 582 íbúðir í nýja hverfinu á Ártúnshöfða. Og að „grófu iðnaðarsvæði sé umbreytt í grænt og þétt íbúðahverfi við lykilstöðvar Borgarlínu. Lögð verði áhersla á að hönnun gatnaumhverfisins styðji við gott aðgengi allra fararmáta og miði við nýjustu útfærslur í þeim efnum.“
Innan rammaskipulagssvæðis Elliðaárvogs/Ártúnshöfða hefur deiliskipulagsvinnu fyrir allt að 2.980 íbúðir verið lokið og 2.520 í eru í ferli. „Þegar breyta á svona svæði sem hefur verið athafna- og iðnaðarstarfsemi um langt skeið, þá þarf til dæmis að huga að því að jarðvegurinn sé viðeigandi fyrir íbúðarhúsnæði, og skipta ef það er mengun og það getur tekið einhvern tíma, segir Sólveig Sigurðardóttir, arkitekt og verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, „en ég held að þetta sé allt að gerast og mikið sem mun breytast á næstunni.“
Staðsetning svæðisins er einstök. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni. Elliðaárvogur er einn veðursælasti staðurinn í Reykjavík en þar gætir ekki norðanstrengs og Ártúnshöfðinn skýlir fyrir suðaustanátt. Miðlæg lega þess á höfuðborgarsvæðinu og nálægð við stofnæðar eru forsendur fyrir þéttbyggðu borgarhverfi sem styður við breyttar áherslur í samgöngumálum.
Á svæðinu öllu er gert ráð fyrir tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við blómlega þjónustu- og atvinnustarfsemi við Krossmýrartorg. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið. Nefna má að á þessu svæði verða borgarlínustöðvar við Sævarhöfða og Krossamýrartorg.
Með tilkomu Borgarlínu mun Ártúnshöfði verða beintengdur miðborginni og tengja saman menningu og mannlíf austur- og vesturhluta borgarinnar. Leiðarljós allrar skipulagsvinnu er að styðja við markmið borgarinnar í loftslagsmálum sem stuðla að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins.