Ársskýrsla byggingarfulltrúa komin út

Framkvæmdir Umhverfi

Bygging hófst á samtals 913 nýjum íbúðum með útgefnum byggingarleyfum árið 2022 auk gerðar á 105 stúdentaíbúðum. Arctic Images/Ragnar Th.
Byggingarkranar, grænt svæði og hús í Reykjavík.

Á árinu 2022 voru samþykkt byggingaráform í Reykjavík fyrir um 167 þúsund fermetra og 695 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði. Hlutdeild íbúðarhúsnæðis var fyrir um 84 þúsund fermetra eða 51% af heild. Þetta kemur fram í ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík sem kynnt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í morgun.

Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða hefur verið frá 2015

Að meðaltali frá 1972 hefur bygging hafist árlega á 668 nýjum íbúðum. Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík hefur verið frá 2015 með samtals 8.186 íbúðum og flestar voru þær árið 2014 þegar bygging hófst á 1.417 nýjum íbúðum. Mesta samdráttarskeið var yfir árin 2009 til 2011 þar sem bygging hófst á samtals 282 nýjum íbúðum yfir tímabilið og einungis 10 íbúðum árið 2010.

Yfir eitt þúsund nýjar íbúðir hafa verið árlega í byggingaráformum síðastliðin fimm ár og mest árið 2018 þegar 1.881 íbúðir voru samþykktar.

Frá árinu 2000 hefur samþykkt byggingarmagn á ári verið að meðaltali fyrir um 200 þúsund fermetra og 850 þúsund rúmmetra. Mesta byggingarmagn í fermetrum var samþykkt árið 2018 eða fyrir um 396 þúsund fermetra fyrir allt húsnæði en einungis 18 þúsund fermetrar árið 2010.

Helstu punktar fyrir árið 2022

  • Samþykktar voru 773 nýjar íbúðir í byggingaráformum árið 2022 auk gerðar á 105 stúdentaíbúðum. Flestar nýjar íbúðir voru í fjölbýlishúsum eða 95% allra íbúða.
  • Bygging hófst á samtals 913 nýjum íbúðum með útgefnum byggingarleyfum árið 2022 auk gerðar á 105 stúdentaíbúðum.
  • Í Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 1.062 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2022.
  • Nýtt byggingarmagn fullgert og tekið i notkun á árinu 2022 var samtals 103.497 fermetrar og 634.662 rúmmetrar fyrir allt húsnæði.
  • 2957 dagskrárliðir voru teknir fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og fimm hjá umhverfis- og skipulagsráði vegna byggingarmála sem gerir samtals 2962.
  • 1021 (34%) samþykktar byggingarleyfisumsóknir, 1834 (62%) frestaðar umsóknir á milli funda vegna athugasemda og/eða ófullnægjandi gagna, 10 (1%) synjaðar umsóknir og formlegar fyrirspurnir og ýmis mál 92 (3%).
  • Málafjöldi sambærilegur og var árin 2019 og 2020

Umsókn um byggingarleyfi orðin rafræn

Stór breyting varð í lok árs 2022 hjá byggingarfulltrúa þegar umsókn um byggingarleyfi varð rafræn. Með rafrænum byggingarleyfisumsóknum sparast tími bæði íbúa og starfsfólks. Sömuleiðis dregur úr kolefnisfótspori vegna starfseminnar út af minni útblæstri vegna bílferða og minni pappírsnotkunar.

Rafrænar byggingarleyfisumsóknir voru kynntar á opnum kynningarfundi í desember. Farið var yfir nýtt umsóknarferli, skil á rafrænum gögnum og afgreiðsluferil byggingarfulltrúa.