Ársskýrsla byggingarfulltrúa komin út

Framkvæmdir Skipulagsmál

Kirkjusandur hefur verið að byggjast upp síðustu misseri. Hér má sjá íbúðir og þjónustu við Hallgerðargötu. Mynd/Róbert Reynisson
Hús, stétt, gras, hjólastæði, hjól.

Á árinu 2023 voru samþykkt byggingaráform fyrir 968 nýjar íbúðir í Reykjavík og voru flestar í fjölbýlishúsum eða 99%. Heildar byggingarmagn var um 184 þúsund fermetra og var hlutdeild íbúðarhúsnæðis um 112 þúsund fermetra eða 61% af heild. Þetta kemur fram í ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík sem kynnt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í morgun.

Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík hefur verið frá 2015 

Frá árinu 2000 hefur samþykkt byggingarmagn á ári verið að meðaltali um 200 þúsund fermetrar. Mesta byggingarmagn var samþykkt árið 2018 eða um 396 þúsund fermetra en einungis 18 þúsund fermetrar árið 2010.

Árið 2023 hófst bygging á 690 íbúðum í nýbyggingum sem er nokkuð í samræmi við fjölda íbúða í nýbyggingum frá árinu 1972 sem er 668 íbúðir að meðaltali á ári. Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík hefur verið frá 2015 með samtals 8.879 íbúðum. Flestar voru þær árið 2018 þegar bygging hófst á 1.417 nýjum íbúðum.

Í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 874 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2023. Nýtt byggingarmagn fullgert og tekið í notkun á árinu var samtals 159.287 fermetrar og 596.268 rúmmetrar fyrir allt húsnæði.

Helstu punktar fyrir árið 2023

  • Samþykkt byggingaráform fyrir 968 nýjar íbúðir í Reykjavík 
  • 99% í fjölbýlishúsum
  • Hafin bygging á 690 íbúðum
  • 874 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun
  • 2.218 dagskrárliðir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa
  • 627 samþykkt mál
  • 1.448 málum frestað á milli funda
  • 12 málum synjað
  • 131 ýmis mál og lóðaruppdrættir

Umsókn um byggingarleyfi orðin rafræn

Stór breyting varð í lok árs 2022 hjá byggingarfulltrúa þegar umsókn um byggingarleyfi varð rafræn. Með rafrænum byggingarleyfisumsóknum sparast tími bæði íbúa og starfsfólks. Sömuleiðis dregur úr kolefnisfótspori vegna starfseminnar út af minni útblæstri vegna bílferða og minni pappírsnotkunar.

Súlurit.