Árbæjarskóli hlýtur Skrekkinn 2018

Skóli og frístund

""

Árbæjarskóli sigraði Skrekk í gærkvöldi eftir að heyja listrænt einvígi við sjö aðra grunnskóla Reykjavíkurborgar. Litríkt og líflegt söngva- og dansatriði, Gott – betra – best var vinningsverk nemenda í Árbæjarskóla.

Í öðru sæti urðu nemendur í Langholtsskóla með óð til kynslóðaskipta, Komið að okkur og í því þriðja varð Seljaskóli með óð til fullveldisársins 1918.  

Hinir skólarnir fimm sem kepptu til úrslita á lokakvöldi Skrekks voru Breiðholtsskóli með atriðið Hann líka, Hlíðaskóli með verkið Ekki drepa draumana, Hagaskóli flutti Hjálp, Hólabrekkuskóli með Ný kynslóð og loks Vogaskóli með Lifum lífinu. Mikil spenna og gleði ríkti í salnum á meðan á keppninni stóð og hvöttu áhorfendur bæði sitt fólk og samkeppnisskólana.

Skúli Þ. Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs afhenti nemendum í Árbæjarskóla sigurlaunin, Skrekksstyttuna eftirsóttu, við mikinn fögnuð sigurvegara sem annarra. 

26 grunnskólar tóku þátt í Skrekk að þessu sinni og hátt í 700 ungmenni dönsuðu, léku og sungu á stóra sviði Borgarleikhússins á þremur undanúrslitakvöldum áður en sjálf úrslitahátíðin hófst.

Í dómnefnd voru Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona, fyrir hönd Borgarleikhúss, Björn Ingi Hilmarsson leikari, fyrir hönd Þjóðleikhússins, Ásbjörn Ingi Ingvarsson fyrir hönd Samfés, fulltrúi Ungmennaráðs Samfés, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, dansari, fyrir hönd Íslenska dansflokksins og formaður dómnefndar var Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Að sögn Sigfríðar var úr vöndu að ráða fyrir dómnefnd því öll atriðin voru mjög góð og hvert með sína sérstöðu.