Áramótabrennum á höfuðborgarsvæðinu aflýst

Umhverfi Mannlíf

Búið er að aflýsa áramótabrennum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var ákveðið á fundi framkvæmdaráðs almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins fyrir helgi. 

Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að núverandi fjöldatakmarkanir vegna sóttvarnaaðgerða miðast við 50 manns og mikið er um smit í samfélaginu. Þrátt fyrir að áramótabrennur fari fram utandyra þá draga þær að sér fjölda fólks og það er mikilvægt að sveitarfélögin hvetji ekki til hópamyndunar við þessar aðstæður.

Sveitarfélögin átta sig á því að þessi ákvörðun getur valdið vonbrigðum en það er mikilvægt að vinna að því saman að fækka smitum, meðal annars með því að forðast mannmergð og leggja áherslu á fagna hátíðunum í minni hópum.