Ánægðar með íslenskukennslu á vinnutíma

Skóli og frístund

Starfsmenn með erlendan bakgrunn klára íslenskunámskeið

Ellefu starfsmenn með erlendan bakgrunn luku námskeiði í íslenskukennslu sem fram fór á vinnutíma í leikskólanum Drafnarsteini. Mikil ánægja var með námskeiðið og árangurinn og mun kennslu verða haldið áfram í haust.

Eiga samtals níu móðurmál

Starfskonurnar ellefu eiga samtals níu móðurmál en þær eru frá Portúgal, Chile, Filipseyjum, Víetnam, Póllandi, Kósovó, Ungverjalandi, Sýrlandi og Úkraínu. Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri á Drafnarsteini segir aðra starfsmenn hafa tekið vel í að hliðra til svo að hægt væri að gera þeim kleift að stunda námið saman. „Mér fannst mikilvægt að þær næðu að vera hópur að gera þetta saman, til að hvetja hvor aðra áfram og fá smá stemningu út úr þessu,“ segir Halldóra Guðmundsdóttir leikskólastjóri. „Við þurftum aðeins að endurskipaleggja og flytja til hópastarf til að láta þetta ganga upp en við erum bara öll í þessu saman. Þannig fór Sverrir aðstoðarleikskólastjóri á eldhúsvakt í Drafnarborg til að sú sem vinnur í eldhúsinu kæmist frá. Ég og sérkennslustjórinn fórum svo inn á deildir þegar þurfti.“ 

Halldóra Guðmundsdóttir leikskólastjóri á Drafnarsteini með þremur stúlkum

Halldóra leikskólastjóri segir alla starfsmenn hafa verið tilbúna til að láta íslenskukennslu á vinnutíma ganga upp.

Mikilvægt að fá tækifæri til að læra íslensku á vinnutíma

Halldóra segir mikilvægt að starfsfólkið fái tækifæri til að læra málið á vinnutíma því það sé meira en að segja það að vera kannski í fullri vinnu, með kannski fjögur börn og ætla sér að læra íslensku í frítímanum. Með aukinni íslenskukunnáttu aukast tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Það nýtist fólkinu sjálfu og ekki síður samfélaginu sem fær betur notið þeirra reynslu og þekkingar sem fólk kemur með í farteskinu þegar það kemur hingað til lands.

Alona klæðir barn í

Alona hefur náð góðum tökum á íslenskunni og nemur hana einnig við Háskóla Íslands.

Börnin bestu kennararnir

Alona Mytrofanova frá Úkraínu og Feryal Aliyadah frá Sýrlandi segja börnin vera bestu kennarana. Hins vegar hafi íslenskukennslan gert þeim kleift að dýpka orðaforðann og huga að málfræðinni. Alona byrjaði að vinna við eldamennsku fyrst þegar hún kom til Íslands og segir hún að þá hafi verið erfitt að ná íslenskunni. Hún stundaði íslenskunám hjá Múltíkúltí málamiðstöð en tækifærin sem hún fékk til að æfa sig þar fyrir utan voru takmörkuð. Eftir ákveðinn lagði kennarinn hennar til að hún færi að vinna á leikskóla, að hún kynni nógu mikið og þannig myndi hún hratt auka við kunnáttu sína. Alona lét ekki segja sér það tvisvar og réði sig á Drafnarstein og sér ekki eftir því. Nú hefur hún lokið einu ári í íslensku sem öðru tungumáli í Háskóla Íslands og talar mjög góða íslensku.

Getur betur hjálpað dætrunum með heimavinnuna

Feryal segir að erfitt hafi verið að ná íslenskunni í byrjun þegar hún var á námskeiði hjá Mími. Málið hafi verið svo framandi að henni fannst hún ekki ná miklu þó að viss grunnur hafi verið lagður. Þegar hún byrjaði að vinna í leikskólanum hafi allt gerst hratt og á sex vikum var hún komin á allt annan stað í málinu. Þar hafi hún líka lært margt annað, eins og að fara í kaffi þýði ekki að viðkomandi þurfi að drekka kaffi heldur geti þess vegna drukkið vatn og spjallað við samstarfsfólkið. Hún segir íslenskukennsluna nýtast henni í vinnunni en líka heima því nú getur hún frekar hjálpað dætrum sínum á grunnskólaaldri með heimavinnuna. Feryal á nokkuð gott með að ná hljóðunum sem notuð eru í íslensku en segir mikla áskorun liggja í að vita hvenær eigi að segja á og hvenær eigi að segja í, eins og í húsi og á lóð.