Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks

Ný útgáfa af Process Pride fánanum blakta við hún við Ráðhúsið í Reykjavík.

Í dag 17. maí er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks, en á þessum degi árið 1990 fjarlægði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin samkynhneigð af lista sínum yfir geðsjúkdóma.

Dagurinn markaði mikilvæg tímamót og á þessum degi er fjölbreytileikanum fagnað af hinsegin fólki og þeim sem styðja baráttu þeirra til að berjast gegn fordómum.

Í tilefni dagsins flaggar Reykjavíkurborg við marga starfsstaði, m.a. við stjórnsýsluhúsin tvö og Höfða. Þá eru skólar, sundlaugar, skrifstofur og fleiri starfsstaðir víða um borgina með hinseginfræðslu og boðið verður upp á ýmsa viðburði til að minna á mikilvægi þess að vinna gegn fordómum í garð hinsegin fólks.

Mannréttindastefna Reykjavíkur kveður skýrt á um bann við mismunun í garð hinsegin fólks og um réttindi hópsins. Skólar og aðrar stofnanir fylgja aðalnámskrá og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem skylda þeim að veita fræðslu um hinsegin fólk. Þá fylgja stofnanir borgarinnar einnig lögum sem banna mismunun í garð hinsegin fólks á vinnustöðum sem og lögum um kynrænt sjálfræði sem tryggja tilverurétt allra kynja og því að fylgja kynvitund þegar kyn er skilgreint.

Ýmsir vindar blása nú á móti hinsegin samfélaginu, sér í lagi trans fólki. En Reykjavík stendur skýr í sinni afstöðu með hinsegin samfélaginu og styður baráttu hinsegin fólks fyrir jafnrétti, sýnileika og virðingu.