Almennum íbúðum fjölgað og hverfiskjarni styrktur

Skipulagsmál

Dæmi um hvernig ný raðhúsabyggð gæti litið út. Myndir/Krads
Teikning af raðhúsum, gróðri og manni á gangi.

Horft er til þess að fjölga íbúðum í raðhúsum auk þess að styrkja leikskóla, frístunda- og listastarf í Fellagörðum með breytingu deiliskipulags Völvufells en samþykkt var að auglýsa tillöguna í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar miðvikudaginn 20. mars. Með breytingunum á reitnum fjölgar íbúðum á almennum markaði um í kringum 30 talsins.

Tillagan tekur mið af upprunalegu deiliskipulagi og fléttast vel inn í aðliggjandi byggð.

Heildarfjöldi íbúða verður í nýju skipulagi 112 íbúðir. Fallið er frá byggingu námsmannaíbúða í Völvufelli.​ Almennum íbúðum í raðhúsum og fjölbýli fjölgar.​ 

Verslun og þjónusta verður á jarðhæðum í hverfiskjarnanum​ en alls verða 75 íbúðir á efri hæðum og í viðbyggingu við kjarnann en staðsetning íbúðanna styrkir á sama tíma grundvöll hverfiskjarnans.

Í neðri hluta skipulagsins verða samtals 37 íbúðir; 24 íbúðir í raðhúsum​, 12 íbúðir í fjölbýli og eitt einbýli/dagheimili.​​

Fyrirhuguð samkeppni um tíu deilda leikskóla

Þarna verður enn fremur 10 deilda leikskóli ásamt miðstöð barna. Lóð leikskólans hefur verið stækkuð og færð neðar á svæðið þar sem skapast sólríkt og skjólgott svæði til fyrir útiveru. Byggingarreitur leikskólans er hafður rúmur til að gefa tækifæri á fjölbreyttari og betri lausnum vegna hönnunar og úrlausna  í fyrirhugaðri leikskólasamkeppni.​

Torgið/garðurinn er samkvæmt nýju tillögunni í sterkum tengslum við ​göngugötu og býður upp á margvíslega notkun í tengslum við verslun og þjónustu, leikskólann eða fyrir almenning. Haldið verður í sem mest af núverandi trjágróðri.​

Tillögunni hefur verið vísað til borgarráðs.