Almenningssalerni í miðborginni

""

Þjónusta við almenningssalerni verður boðin út fljótlega á nýju ári og eru útboðsgögn í vinnslu. Kostnaður við rekstur sjö almenningssalerna í miðborg Reykjavíkur hefur verið um 40 milljónir á ári og þegar um slíkar upphæðir er að ræða kveða innkaupareglur borgarinnar á um að þjónustan skuli boðin út.

Núverandi samningur um almenningssalerni rennur út um áramót, en hann hafði verið framlengdur í þrígang. Til stóð að bjóða þjónustuna út fyrr á þessu ári, en vegna ábendinga um forsendur í útboðsgögnum varðandi útlit, stærð og staðsetningu salerna var útboðið afturkallað, til að vanda mætti betur þá undirbúningsvinnu.

Almenningssalerni í Ráðhúsi, Hlemmi, Borgarbókasafni, Sundhöllinni, Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 10-12 og Kjarvalsstöðum standa til boða, en þau salerni sem lokast um áramót eru öll á svipuðum slóðum.