Reykjavíkurborg ætlar að banna stórar rútur í miðborginni. Þess í stað verða tólf sleppisvæði staðsett í miðbæjarkjarnanum þar sem auðvelt er að leggja. Borgarstjórn hefur sent lögreglustjóra beiðni um lokunina. Nýjar reglur um akstur hópbifreiða verða kynntar þegar bannið hefur verið samþykkt.
Bannið á við um hópferðabifreiðar sem eru átta metrar eða lengri en til samaburðar má geta þess að almennur strætisvagn er 13 metrar. Bílstjórar eða fyrirtæki sem ekki virða þessar takmarkanir verða sektuð.
Svæðið afmarkast af Barónsstíg, Eiríksgötu, Njarðargötu, Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi, Lækjargötu og Hverfisgötu. Undanþegnar banni verði slökkvi- og sjúkrabifreiðar, sorphreinsibifreiðar og þjónustubifreiðar á vegum Reykjavíkurborgar, auk bíla sem fara að Sundhöllinni.
Sleppisvæðin verða í Lækjargötu við Mæðragarðinn, í Vonarstræti við Ráðhúsið, í Aðalstræti við Ingólfstorg, á Vesturgötu við Geysi, á Kalkofnsvegi við Arnarhól, í Faxagötu við Hörpu, í Ingólfsstræti við Arnarhól, á Hverfisgötu við Hljómalindarreit, á Eiríksgötu við Hallgrímskirkju, á Njarðargötu við Þórsgötu, á Laugavegi við Hlemm og í Þórunnartúni.
Reykjavíkurborg hefur áður gefið út tilmæli um að stórar rútur aki ekki um tilteknar götur en þau dugðu ekki til. Því hefur borgarstjórn samþykkt að setja reglur um akstur hópbifreiða í miðborginni. Fáist samþykki lögregluyfirvalda við banninu verða þær götur, sem bannað er að aka um, vel merktar. Stefnt er að því að koma upp merkingum um leið og bannið tekur gildi.
Auðkenni sleppisvæða
Sleppisvæðin eða söfnunarstaðir ferðamanna
Tillaga að ökuleiðum hópferðabifreiða í miðborginni