Áhrif fyrirhugaðra verkfallsaðgerða Eflingar

Velferð Skóli og frístund

""

Komi til verkfalla mun það hafa mest áhrif á leikskóla- og velferðarþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar auk sorphirðu, vetrarþjónustu og umhirðu borgarlandsins.

Verkalýðsfélagið Efling hefur boðað til verkfallsaðgerða næstkomandi þriðjudag frá hádegi til miðnættis. Er það fyrsti dagurinn í boðuðum verkfallsaðgerðum. Komi til verkfalla mun það hafa mest áhrif á leikskóla- og velferðarþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar auk sorphirðu, vetrarþjónustu og umhirðu borgarlandsins.

Starfsfólk Eflingar telur um 1.850 af um 9000 starfsmönnum borgarinnar. Eflingarfólk  starfar í fjölbreyttum störfum á 129 starfsstöðum hjá Reykjavíkurborg.  Um 1.000 starfa á skóla- og frístundasviði, þar af mikill meirihluti í leikskólunum. Þá starfa um 700 úr Eflingu við velferðarþjónustu borgarinnar.

Áhrif á leikskólastarf

Starfsfólk Eflingar í skólum á vegum Reykjavíkurborgar er um 1.000. Ef til vinnustöðvunar kemur mun það fyrst og fremst leiða til skerðingar á þjónustu leikskóla í Reykjavík en þeir eru 63 talsins.

Misjafnt er eftir leikskólum hversu mikil skerðingin verður en ljóst er að í mörgum skólum verður hún veruleg. Matarþjónusta verður með ólíkum hætti milli leikskóla. Stjórnendur leikskólanna munu upplýsa forráðamenn leikskólabarna um þá þjónustu sem verður í boði á meðan á verkfallsaðgerðum stendur.

Foreldrar greiða ekki gjöld fyrir þá daga sem börn geta ekki sótt leikskóla vegna verkfalls eða þjónustuskerðingar,s.s. matarþjónustu.

Komi til verkfalls mun það hafa óveruleg áhrif á grunnskóla Reykjavíkur. Skólastjórnendur grunnskóla Reykjavíkur munu upplýsa nemendur og forráðamenn nánar eftir því sem við á.  Þjónusta frístundaheimila verður óbreytt.

Áhrif á velferðarþjónustu

Velferðarsvið sótti um undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og þeirra sem þurfa á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum. 

Sótt var um undanþágu fyrir um 245 stöðugildi af um 450 hjá velferðarsviði á eftirfarandi starfsstöðum. Hefur verkalýðsfélagið Efling samþykkt undanþágubeiðnir vegna þessara starfsstaða.

  • Tvö hjúkrunarheimili Droplaugarstaðir (ásamt Foldabæ) og Seljahlíð
  • 13 starfsstaðir þar sem rekið er húsnæði fyrir fatlað fólk (íbúðakjarnar og herbergjasambýli)
  • Sex starfsstaðir sem sinna málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir
  • Nauðsynleg öryggisþjónusta á heimilum
  • Þjónustuíbúðir á fimm stöðum
  • Framleiðslueldhús Lindargötu sem sér um að elda og pakka heimsendum mat.
  • Vistheimilið Mánaberg

Fyrirhugað verkfall mun t.a.m. hafa þau áhrif á velferðarþjónustu borgarinnar að ekki verður boðið upp á mat og kaffiveitingar í níu félagsmiðstöðvum fyrir aldraða auk þess sem heimaþjónusta á borð við þrif frestast á verkfallsdögum. Dagdvöl fyrir einstaklinga sem búa í heimahúsum sem rekin hefur verið í Þorraseli mun loka en þar eru að jafnaði 40 einstaklingar sem njóta þjónustunnar. Þá mun ekki verða hádegismatur í boði fyrir fatlað fólk sem starfar og dvelur í Iðjubergi og Gylfaflöt.

Sorphirða og umhirða borgarlands

Á boðuðum verkfallsdögum mun sorphirða frestast. Þá verður hreinsun í kringum grenndarstöðvar ekki sinnt auk ýmissar umhirðu í borgarlandinu.  Öryggis- og bilanavakt borgarlandsins fellur niður. Snjóhreinsun og hálkuvarnir á aðskildum hjólaleiðum og stofnanalóðum, t.d við leik og grunnskóla fellur enn fremur niður.

Boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar

- Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

- Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

- Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.