Margt leikskólafólk úr Reykjavík sótti EECERA ráðstefnuna sem haldin var í Lissabon í síðustu viku. Ráðstefnan er ein sú stærsta í heiminum um rannsóknir og kennslu yngri barna og í ár var áherslan á forvitni og þátttöku barna.
Kynntu myndbönd og rafbækur
Þær Pála Pálsdóttir leikskólastjóri í Engjaborg, Sigrún Grétarsdóttir leikskólastjóri í Hólaborg og Friðbjörg Gísladóttir sérkennslustjóri í leikskólanum Hólaborg kynntu þróunar- og nýsköpunarverkefnið „Flæði og samþætting og þátttaka barna í leikskólastarfi“. Þær kynntu myndbönd, rafbækur og skýrslur sem aðrir leikskólar geta nýtt sér. Kynningin hlaut góðar undirtektir og ætlaði ein þeirra sem á hlýddu að nýta sér myndböndin fyrir starfsfólk í Eþíópíu.
Fjallar um áhrifamátt barna í skipulagi leikskóla
Markmið verkefnisins byggja á sjálfseflingu og félagsfærni þar sem leikskólastarf með áherslu á jafnrétti og virkri þátttöku barna með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Unnið verður að þessum markmiðum með því að styrkja starfsfólk leikskólanna með þátttöku í upplýsandi fræðslu og umræðu um hvernig hægt er að virða skoðanir barna og áhrifamátt þeirra við skipulag leikskólastarfsins.
Leikskólarnir Funaborg, Sunnufold taka einnig þátt í verkefninu ásamt Háskóla Íslands.