Fram hefur á undanförnum árum byggt upp öfluga íþróttastarfsemi í Úlfarsársdal og í dag var gengið frá samningi sem markar áfanga í flutningi félagsins úr Safamýri. Samningurinn kveður á um áframhaldandi uppbyggingu Knattspyrnufélagsins Fram í Úlfarsárdal og um leið færast eignir félagsins í Safamýri til Reykjavíkurborgar, sem gefur borginni svigrúm til að þróa svæðið fyrir íbúðabyggð.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, skrifaði undir samninginn fyrir hönd borgarinnar og Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, formaður Fram fyrir hönd félagsins.
„Það er afar ánægjulegt að sjá áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal. Nýtt knatthús mun enn frekar efla þennan vel heppnaða kjarna sem borgin hefur byggt upp á svæðinu," segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Knatthús og áhaldahús á áætlun
Knatthús verður að veruleika á íþróttasvæðinu í Úlfarsársdal og einnig verður byggt áhaldahús sem tengir knatthús við íþróttahúsið.
Samhliða afhendingu eigna Fram í Safamýri til Reykjavíkurborgar hafa aðilar sammælst um eftirfarandi uppbyggingaráætlun í Úlfarsárdal með fyrirvara um samþykki fjárfestingaráætlunar Reykjavíkurborgar:
Árið 2025
- Unnin verði breyting á deiliskipulagi
- Framkvæmdir verði hafnar við áhaldahús sem á að tengja íþróttahús við fyrirhugað knatthús.
- Lokið verði við blaðamannastúkur í íþróttasal og úti við keppnisvöll.
Árið 2026
- Unnið verði að hönnun og kostnaðaráætlun svokallaðs C+ knatthúss. Knatthúsið verði boðið út fyrri hluta árs 2026.
Árið 2027
- Bygging knatthúss hefst í samræmi við samþykkta fjárfestingaáætlun, stefnt er að því að taka húsið í notkun árið 2029.
Fulltrúar Fram og Reykjavíkurborgar. Frá vinstri: Þorgrímur Smári Ólafsson, Þór Björnsson, Einar Þorsteinsson, Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, Skúli Helgason og Kristinn Rúnar Jónsson.
Borgin fær eignir í Safamýri
Samningurinn sem var undirritaður í dag er viðauki við samning sem samþykktur var á fundi borgarráðs 6. júlí 2017 og fjallaði um flutning knattspyrnufélagsins Fram úr Safamýri í Úlfarsárdal/Grafarholt, uppbyggingu mannvirkja og rekstur þeirra og afhendingu eigna í Safamýri til Reykjavíkurborgar.